Friday, April 15, 2011

Í dag var mín heitasta ósk að komast á Þjóðarbókhlöðuna...


og ástæðan fyrir því er fáránlegt bókasafnskerfi Vínarháskóla, sem ég mun segja ykkur frá í smáatriðum hér rétt á eftir. Spennandi ekki satt?

Til að byrja með eru nokkur kynningaratriði:
  1. Næstum því hver deild innan Vínarháskóla er með sitt eigið bókasafn. Jebbs, það eru 49 bókasöfn á vegum háskólans á víð og dreif um borgina. Það eru nær engar bækur til sýnis í aðalbókasafninu, og því þarf maður að panta allar þær bækur sem maður vill skoða eða fá lánaðar. 
  2. Maður pantar þær á innra neti bókasafnsins og svo eru sérstakir útlánstímar þar sem maður mætir og sækir bókina sína. Þú getur ekki bara mætt hvenær sem er og athugað hvort þeir eigi tiltekna bók heldur ferð þú vinsamlegast aftast í röðina (oftast svona 15 manns á undan manni) og bíður rólega í steikjandi hitanum þarna inni.
  3. Þegar þú kemur inn á bókasafn, ekki dirfast að ganga þar inn í úlpunni og með tösku. Þó maður sé ekki einu sinni að fara læra, aðeins að fara ná í 2 bækur og drífa sig út aftur þá þarf maður að vera með 2 evrur á sér, setja þær í skáp, setja allt draslið inn í skápinn og þá ertu gjaldgengur til útláns á bók

Ég er í söguáfanga þessa önn sem fjallar um The Great Terror in the Soviet Union 1936-1938 og þar ætla ég að skrifa um Women in Stalin’s Soviet Union. Kennarinn sendir þá lista yfir bækur sem henta umfjöllunarefni hvers og eins, en ekki mikið er um greinar í erlendum tímaritum sem ég nota oftast (og hægt er að nálgast á internetinu). Ég fékk listann og hann sagði að bækurnar ættu flestar að vera til á bókasafni sögudeildarinnar.

Í dag lagði ég svo leið mína upp í skóla. Bókasafnið er víst staðsett á efstu hæð aðalbyggingar og þangað labbaði ég og náði næstum því að finna réttan stað, en nei, ég komst að glerhurð þar sem ég sá bókasafnið inni en hurðin var læst. Ég nennti ekki að leita að rétta inngangnum og ákvað eins og ég á það mjög oft til – að leita mér hjálpar í nánasta umhverfi. Bankaði á hurð einhvers prófessorsins sem staðfesti það að ég væri á kolvitlausum stað en sagði að hann lumaði nú á lykli að þessari glerhurð. Jæja, þá var ég loksins komin inn. Eftir 2 klst af leit og hjálp frá svona 5 manns náði ég að fá lánaða eina bók (af svona 7 sem voru á listanum) en komst að því að sögubókasöfnin (já þau eru nokkur) lána bara út bækur yfir helgi. Hvurs lags...? En þar datt ég í lukkupottinn þar sem það er að koma páskafrí og konan tilkynnti mér að ég mætti hafa hana þar til eftir páskafrí (ég hitti svo vinkonu mína í hádegismat stuttu eftir þetta og hún var í sjokki yfir þessu “you really got a book at the history library to take home for 2 weeks??!! Ohhh i HATE the history library, i never go there because of this).

Þar sem ég náði aðeins einni bók útúr þessari ferð, þá fór ég á netið og náði að panta 2 bækur frá aðalbókasafninu (ef ég hefði verið að panta svona klst seinna þá hefði ég ekki geta sótt bækurnar fyrr en eftir helgi..). Hins vegar var mér bent á að fara í Austur-Evrópu sögubókasafnið sem væri hérna nokkrum götum frá. Ég fór þangað (að ég hélt), fékk lykil að skáp, skellti úlpunni og öllu draslinu inní skápinn og fór svo inn. Var þar að reyna að leita af bókum, skildi ekki neitt og spurði því bókasafnsvörðinn. Hún benti mér á að þetta væri Austur-Asíu bókasafnið. Jæja... þá labbaði ég smá spöl og komst loksins á rétta bókasafnið, þurfti að sjálfsögðu að fara í gegnum allt skápadæmið aftur og náði í nokkrar bækur. Tók svo tramminn aftur í aðalbygginguna þar sem mér var tilkynnt eftir sveitta bið að það væri aðeins ein bók tilbúin fyrir mig. Ég gæti komið kl.4 og náð í hina (kl. var 3). Þarna var ég alveg komin með uppí kok af þessum bókasöfnum og dreif mig heim.

Á leiðinni heim hugsaði ég hvað ég væri ótrúlega fegin að hafa tekið þá ákvörðum að skrifa BA ritgerðina heima í sumar á elsku bestu einföldu Hlöðunni.

P.s. Lærdómur dagsins: Starfsfólk bókasafna er upp til hópa gríðarlega vinalegt og hjálplegt. Það er eitthvað við þetta fólk..heima á Borgarbókasafninu var ég t.d. stundum með skuldir vegna DVD mynda eða bóka og í hvert einasta skipti lækkaði bókasafnsvörðuinn skuldina. Bara svona útaf engu.

og nú ligg ég og glugga í spennandi bækur sem ég hafði uppúr krafsinu.


2 comments:

  1. Haha, elsku bókhlaðan hljómar eins og draumastaður miðað við þetta. Sýndu þeim hvernig á að gera þetta Valka!

    ReplyDelete
  2. Vá það er svo pirrandi að þurfa redda alltaf öllu á milljón mismunandi stöðum. I feel your pain sistha!

    ReplyDelete