Sunday, February 27, 2011

Vínarbúar

Eitt af því skemmtilegasta við að búa í stórborg er að fylgjast með mannfólkinu. Hér er mikið um fjölbreyttar týpur og sérstaklega mikið um "fancy" og uppáklætt gamalt fólk.
Unga fólkið er þó því miður ekki jafn flott hérna, það er alls ekki mikið um að þau klæði sig öðruvísi og reyni að vera spes eins og svo mikið er um í (sérstaklega) 101 Reykjavík.

Okkur Eyþóri finnst gaman að laumast til að taka myndir af fólki á förnum vegi (sem í tilfelli efstu myndarinnar tókst ekki alveg...)

Þessum fannst gaman að láta mynda sig og vinkaði okkur og brosti.

Þessa týpu rekumst við ósjaldan á í Vínarborg.

Virðuleg hjón sem virðast hafa lifað tímana tvenna.


Andstæður



kv. V

Saturday, February 26, 2011

Berlínarmúrinn?

Þó að stór partur af Vínarborg sé mjög fallegur, og þá sérstaklega miðbærinn og nokkur hverfi sem umkringja 1.hverfi, þá eru einnig ljót hverfi hérna sem státa þó flest af einu og einu fallegu húsi.
Við erum því miður ekki svo lukkuleg að búa í einu af fallegu hverfunum.


Við búum í 10.hverfi sem er eitt af stærstu Tyrkjahverfum Vínarborgar, búum þó alveg við 4.hverfi, en ekki lengst inn í 10.hverfi (sem er held ég stærsta hverfi borgarinnar).
Þar sem íbúðin okkar er æðisleg, þá létum við þetta ekki á okkur fá og í rauninni erum við voða ánægð með hverfið okkar. Fínt að hafa Tyrkjabakarí/sjoppu á horni hússins okkar sem brýtur sífellt opnunartímalögin og hefur opið langt fram á kvöld og á sunnudögum. Svo er mjög hentugt að hafa aragrúa af kebabstöðum nokkrum götum frá þegar maður vaknar óhress á sunnudagshádegi.. 
Fínasta göngugata er hér í 3ja mínútna fjarlægð með öllum helstu matvöruverslunum, H&M, tveimur McDonalds (með svona 100 m á mili sín) og fullt af fleiri veitingastöðum og fatabúðum (margar hverjar með ódýr Tyrkjaföt þar sem geta þó leynst gersemar innan um þröngu plast-mittisúlpurnar).


Þegar ég lít útum gluggana mína finnst mér samt stundum eins og ég sé komin aftur um 30 ár og búi við Berlínarmúrinn...





Já, útsýnið er ekki það fallegasta! Bak við vegginn er verið að byggja Hauptbahnhof eða aðallestarstöð Vínarborgar.

og svo ein af mér við safn um raunverulega Berlínarmúrinn..


Tuesday, February 22, 2011

Afmælisbrósi og pólska rótin kvödd

Í dag finnst mér afar leiðinlegt að vera ekki stödd á Íslandi, nánar tiltekið á Bragavöllunum til þess að knúsa afmælisstrákinn minn.
Elsku sæti og besti litli bróðir minn á afmæli í dag.
Ég gleymi því ekki hversu yfir mig ánægð ég var fyrir 12 árum þegar litla dýrið leit dagsins ljós, þá var ég akkurat 12 ára sjálf og barnasjúk eins og flestar stelpur á þessum aldri.
Mamma hafði því alltaf barnapíu sem fannst fátt skemmtilegra en að leika við drenginn, kyssa hann og knúsa. 
Ekkert af þessu hefur þó breyst og aftur (líka þegar ég bjó í Bandaríkjunum) finnst mér helsti gallinn við að búa erlendis að "missa af" ári úr lífi bróður míns.


Til hamingju með daginn elsku Porri minn (efast þó um að hann lesi þetta)
vona að pósturinn hafi skilað sínu í dag.... :)


Lítil

Aðeins stærri..daginn áður en ég flutti út.

Annars er þetta í gangi núna á Landgutgasse:


Ég er afar lánsöm að eiga svo góðan mann sem getur litað á mér hárið!!
Haha... hann tók hommaröddina og var í síðum nærfötum við gjörninginn, var alveg að fíla sig í nýja hlutverkinu. Tengdamóðir hans, hárgreiðslumeistarinn var búin að kenna honum réttu tökin sem nota skal þegar undirrituð er komin með pólska rót.
Þetta er virkilega vel þegið þar sem ég treysti illa öðru hárgreiðslufólki en móður minni (með litun) en hann fær því miður ekkert svona frá mér (ég reyndi einu sinni að raka á honum hárið en hann endaði alsköllóttur og frekar glæpamannslegur þessi elska). 

Kv. vonandi bráðum blondína á ný - V

Monday, February 21, 2011

Jarðaberjahráterta

Hafiði prófað að blanda saman jarðaberjum og kasjúhnetum?
í blandara að sjálfsögðu...
Útkoman er þannig að ég hlakka til að sleikja allan helvítis blandarann þegar ég er búin að gera kökuna...

Ég blandaði saman tveimur uppskriftum og útkoman var æðislega góð og holl (og falleg) jarðabertaterta.
Uppskriftina af botninum fékk ég hjá Ester fyrirmyndarhúsmóður og efra lagið (fyllinguna) fékk ég hjá Sollu, nánar tiltekið á lifraent.is. Ég prófaði að gera botninn hennar Sollu líka en fannst hann ekki nógu góður. Einnig mælir Solla með að setja súkkulaði krem yfir hana (sem er gert með kókosolíu, kakó og agavesýrópi) en ég prófaði það einu sinni og fannst það of mikið.

Hér er uppskriftin:



Botn

1,5 bolli lífrænt kókosmjöl
1,5 bolli möndlur
0,5 tsk sjávarsalt
300-400 gr döðlur 
Cayenne pipar á hnífsoddi
Agave sýróp



(Texti einnig frá Ester). Döðlurnar eru lagðar í bleyti í vatn í um tíu mínútur. Á meðan er kókosmjölið, möndlurnar og saltið sett í matvinnsluvél og unnið vel saman. Að lokum má hella vatninu af döðlunum og bæta döðlunum út í matvinnsluvélina ásamt Cayenne piparnum og vinna vel. Því næst skal kreista ögn af agave sýrópi saman við blönduna þar til hún klístrast vel saman. 

Takið venjulegt smelluform og leggið klessuplast ofan í botninn og látið endana á plastinu standa vel upp úr forminu. Takið döðlublönduna úr matvinnsluvélinni og klessið í botninn á forminu með fingrunum. Setjið í frysti á meðan efri lagið er búið til.

Fylling

 4 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í um 2 klst (verða 6 dl) 
1 -1½ dl agaves sýróp
1 ½ dl kaldpressuð kókosolía
2 tsk vanilluduft
smá himalaya/sjávarsalt
400g frosin jarðaber 


Til að bræða kókosolíuna, látið heitt vatn (ekki yfir 45°C) renna á krukkuna (þetta er til þess að kakan teljist "hrá" - ég svindla samt oft útaf óþolinmæði...). Blandið saman hnetum og agavesýrópi þar til það er orðið silkimjúkt. Bætið þá restinni af upskriftinni út í hentublönduna og blandið mjög vel saman. Setjið fyllinguna yfir botninn og geymið í 1 klst í kæli eða ½ klst í frysti. Tíminn er að vísu persónubundinn, mér finnst best að setja hana aðeins í frysti, taka hana út og leyfa henni að þiðna aftur. Mér finnst tertan best ísköld en samt ekkert frosin, Eyþór vill hafa hana aðeins frosna.. þannig að um að gera að prófa bara bæði :) Svo sakar ekki að skreyta með jarðaberjum.






Kv. Kökuperrinn.

Friday, February 18, 2011

Back to the future

Rakst á þessa ótrúlega sniðugu og skemmtilegu myndaseríu frá argentínska ljósmyndaranum Irina Werning. Ekkert smá flott hvernig hún nær að redda alveg eins fötum og hvernig hún nær að hafa umhverfið alveg eins líka.
Ég og Eyþór ætlum um leið og við komum heim að skoða gamlar myndir af okkur og reyna að herma eftir einhverjum þeirra.. svo erum við með aðra svipaða hugmynd sem við ætlum að prófa í næstu utanlandsferð okkar.








Endilega skoðið fleiri myndir hér.

P.s. klikkið á myndirnar til þess að sjá þær stærri - þetta getiði auðvitað alltaf líka gert með myndirnar mínar sem ég set inn.



Thursday, February 17, 2011

Valentínus og flóamarkaður

Nokkrar myndir frá síðustu dögum..


Í (of) stóra 5 evru pelsinum í bakgarði hússins okkar

Secession, Karlsplatz - fallegur himinn

Vikulegi flóamarkaðurinn á Naschmarkt þar sem ekki er mikið verið að splæsa í borð né fataslár.

Fínt að leita sér að bókum á götunni bara...

Krapfen (eða Berlínarbolla eins og þetta kallast heima) með súkkulaði í staðinn fyrir sultu/hunang

Valentínusardagur: Bleik kaka og ávaxtasalat í hjartaskál í morgunmat (þennan morgunmat var óvenjugaman að útbúa þar sem mín beið yndislega falleg gjöf í eldhúsinu frá drengnum... einn sem veit upp á hár hvert ég skunda um leið og ég vakna)


P.s. ég kem með uppskrift að hollu bleiku uppáhalds hrákökunni á næstunni, ég verð að leyfa fleirum að njóta hennar, hún er svo sjúúklega góð! og þær gerast varla hollari... :)

P.s2. Ég setti svona like dálka hérna fyrir neðan, þið getið þá tjekkað í boxin ef þið viljið.

Monday, February 14, 2011

First Aid Kit


Af hverju hafði ég ekki heyrt í þessum stelpum áður?
Þær eru æði!
Sænskar systur sem gerðu cover af Tiger Mountan Peasant Song með Fleet Foxes og settu á youtube. Eftir það fór boltinn að rúlla og útgáfufyrirtæki í eigu The Knife í Svíþjóð samdi við þær og gaf út plötuna þeirra í fyrra.
Yndislega falleg tónlist..


Thursday, February 10, 2011

BLOODGROUP Í WIEN

Íslenska elektróbandið BLOODGROUP spilaði í Vín síðasta mánudag, nánar tiltekið á B72 (besta tónleikastaðnum í bænum). Við kíktum að sjálfsögðu ásamt nokkrum öðrum Íslendingum og skemmtum okkur konunglega og slömmuðum allt kvöldið. Sveitin er að túra massívt um Evrópu þessa dagana og mig minnir að þau verða að spila á um 25 tónleikum á einum mánuði...scheiße! 
Allavega, showið var geðveikt og þau eru rosalega flott á sviði.


Eyþór tók nokkrar myndir:










Annars er það að frétta að ég er í fríi í skólanum allan febrúar (asnalega annarkerfi!) en ég þarf þó að gera tvær ritgerðir fyrir síðustu önn. Svo ákvað ég að nýta tímann og taka einn þýskukúrs í þessum mánuði sem ég er mjög ánægð með! Þýskan er öll að koma til og feimnin við að tala hefur minnkað til muna. Á morgun ætlum við svo upp á flugvöll seinni partinn að sækja frænda Eyþórs sem ætlar að vera hjá okkur yfir helgina.

Bis dann,
-V

Sunday, February 6, 2011

Helgaruppskriftir

Laugardagur og sunnudagur voru mjög rólegir hjá okkur á Landgutgasse. 
Í gær var mikið um tölvuhangs, góðgætisgerð og svo horfðum við á Amélie. Í dag fórum við í myndatökugöngutúr eins og við gerum svo oft, tökum vélina, hendum okkur í lestina og veljum einhverja stoppistöð sem við höfum aldrei farið út á. Röltum þar um hverfið og tökum myndir. Duttum inn á all you can eat hlaðborð með indverskum og asískum mat sem spilaði eðal Óliver músík í botni. 
Dyrabjallan var að hringja rétt í þessu (hún er fáránlega hávær þar sem gamli maðurinn sem bjó hér á undan var næstum orðinn heyrnalaus). Þeldökki nágranninn okkar með dreddana hringdi bjöllunni til að athuga hvort við ættum sígarettur. Svo vinaleg blokkin okkar!


Nenni ekki að lóda myndunum inn en í staðinn fáiði uppskriftir laugardagsins (þar sem ég er algjört matarbloggafrík og finnst gaman að deila uppskriftum sem ég hef prófað og finnst góðar).


Hádegismatur:


Hafra - og spelt pönnukökur (mjög einfaldar og fljótlegar)


Gömul mynd af öðrum pönnukökum (jólatréð er þó bara nýfarið í geymsluna) sem ég þarf eiginlega að deila með ykkur uppskrift seinna.



1 bolli hafrar

1 bolli létt AB-mjólk
Hræra þessu vel saman, verður eins og þykkur hafragrautur. Setja út í hafrablönduna eftirfarandi hráefni:
1 egg
2 msk olía
1/4 bolli heilhveiti
smá agave sýróp eða hunang
1 tsk lyftiduft
kanill eftir smekk, ég notaði að sjálfsögðu slatta
Svo bara blanda öllu vel saman, skella á pönnu og you know the rest.

Uppskrift er fengin hér: http://ellahelga.blog.is/blog/ellahelga/entry/882291/

Þessar eru ótrúlega góðar, við settum fersk jarðaber, banana og agave sýróp út á.

Kvöldmatur:

Heimagerð pizza

Uppskrift óþörf þar sem við keyptum bara rúlludeig (ég á ekki kökukefli og finnst þar að auki hundleiðinlegt að búa til deig). Þó heimalöguð sósa þar sem fersk steinselja út á í lokin gerir gæfumun!


Eftirréttur: 

Ís með hráfæðis-berjarétt



HRÁEFNI:



MULNINGUR:

  • 1 bolli döðlur, lagðar í bleyti í 30 mínútur
  • 1 bolli möndlur með hýði (= 250 ml)
  • 1 tsk kanill
  • 1 tsk múskat (ég nota ½ tsk og stundum sleppi ég múskatinu alveg og nota ½ tsk til viðbótar af kanil)
  • ½ tsk fínt sjávarsalt

FYLLING:

  • 4 bollar bláber (= 1 lítri)
  • ¼ bolli agave síróp

AÐFERÐ:
  1. Leggið döðlurnar í bleyti í 30 mínútur
  2. Byrjið svo á mulningnum: Setjið möndlur, kanil, múskat og salt í matvinnsluvél, stillið á „pulse“ og látið vélina vinna uns þið fáið litla klumpa. Hellið vatninu af döðlunum, bætið þeim út í og vinnið vel
  3. Setjið helminginn af mulningnum í leirmót/bökudisk og setjið hinn helminginn til hliðar
  4. Til að gera berjafyllinguna: Setjið bláberin í stóra skál, hellið agave sírópinu yfir og notið mjúka sleif til að hræra þessu rólega saman og passið að kremja ekki berin
  5. Hellið berjafyllingunni yfir mulninginn í mótinu/bökudisknum og dreifið svo restinni af mulningnum yfir berjafyllinguna
  6. Ég set þetta svo í viskíglas og setti þrjú lög af ís (súkkulaði og vanillu) og berjablönduna inn á milli. Þetta er ótrúlega gott! Svo daginn eftir set ég blönduna út á jógúrt í morgunmat.
Uppskrift upprunalega frá 
Ani Phyo hráfæðisnilling en þessa útgáfu fékk ég frá þessari dömu hér: http://lisahjaltuppskriftir.blogspot.com/2011/01/blaberjaeftirrettur-ani-phyo.html

Ég reyndar geri oftast minni uppskrift og nota bara eins mikið af berjum og ég á. Í gær blandaði ég saman ferskum jarðaberjum og frosnum bláberjum 

Hér er svo mynd af réttinum án íss: (mynd tekin af sömu síðu og hér fyrir ofan)