Við röltum af stað með bakpokana okkar niðrá Südtiroler Platz sem er hér í göngufæri en þaðan fór rútan til Bratislava. Þó svo að við förum af og til í ferðalög hérna þá erum við ennþá fátækir námsmenn sem þurfa að fljúga með Ryan Air... En það flugfélag flýgur aðeins frá Bratislava flugvelli en hann er bara rúmum klukkutíma hérna frá þannig að það var ekkert mál. Við lentum svo í Girona sem er um einum og hálfum klukkutíma frá Barcelona (jájá Ryan Air flýgur á allra flottustu flugvellina... þessir tveir eru þeir allra minnstu sem ég hef á ævi minni komið á). Flugin með Ryan Air voru óaðfinnanleg og töskurnar komnar eftir 5 mínútur í bæði skiptin (kannski útaf því að það var ekkert annað í gangi á flugvöllunum þegar við komum) þannig að við höfðum engu yfir að kvarta.
Þegar komið var til Barcelona rétt eftir miðnætti byrjuðum við á því að hringja vitlausri dyrabjöllu hjá manni sem tilkynnti okkur að Ally's Guesthouse væri í íbúðinni við hliðina. Graciela, eigandi gististaðsins tók á móti okkur og sýndi okkur íbúðina sína þar sem hún býr en hún leigir svo út 5 herbergi. Hún var um sextugt, spænsk en talaði góða ensku þrátt fyrir að ég átti erfitt með að skilja framburðinn hennar í byrjun. Við fórum tvær saman upp lyftuna þegar við komum fyrst á gistiheimilið, ég þreytt eftir ferðalagið og var ekki alveg að átta mig á framburðinum hennar. Hún byrjaði á því að segja eitthvað um lykilinn sem ég var ekki alveg að ná og svo sagði hún bara uppúr þurru "yes and then you gotta watch the big pockets". Ég var ekki að fatta um hvað hún var að tala en hún var víst að reyna að segja mér að passa mig á vasaþjófunum - hún átti semsagt við "pickpockets". Eftir vandræðalegar samræður spurði hún mig hvaðan ég væri og ég sagði henni það. Þá sagði sú gamla "hmm ok, well your English is very basic".
Þarna var ég orðin hálfpirruð að skilja ekkert sem hún sagði (ég átti svo eftir að venjast enskunni hennar) og sagði "eeh no, my English is actually very good, I just don't understand your accent" - og sagði þetta með ameríska hreimnum sem ég á það stundum til að nota óvart. Greyið kellan beið þá bara eftir Eyþóri sem skildi hana aðeins betur.
Gistiheimilið hennar var yndislegt og það beið okkar morgunverðarhlaðborð á hverjum morgni. Stemningin var ótrúlega notaleg og hinir gestirnir virkilega næs.
Áður en við fórum vorum við (eins og alvöru Íslendingar) búin að tjékka á veðurspánni og alla dagana voru ágætislíkur á rigningu. Morguninn eftir að við komum litum við útum gluggann og það var grenjandi rigning. Frekar svekkt ákváðum við að sofa aðeins lengur. Um klukkutíma síðar vöknuðum við og sólin komin á kreik - sem hélst svo á lofti næstum allan tímann og ekki einn einasti dropi lét sjá sig restina af dvölinni. Hitinn var mátulegur og veðrið tilvalið til borgarskoðunar.
Það sem við gerðum m.a.:
- Hittum Helgu, æskuvinkonu Eyþórs sem er í vöruhönnunarnámi við IED skólann. Fórum útað borða með vinum hennar, fengum okkur strawberry daiquiri og kíktum á pöbb. Síðan bauð hún okkur í mat heim til sín og við nutum kvöldsins með henni og meðleigjanda hennar eitt kvöldið. Æðislega gaman að hitta hana og fræðast um líf hennar í Barcelona og gaman að fá fróðleiksmola um borgina, menningu Katalóníubúa og uppástungur um áhugaverða staði að skoða í borginni.
- Röltum endalaust! Notuðum undergroundið aðeins en við löbbuðum eiginlega allt (og náðum þá að sjá mikið af borginni)
- Röltum niðrá bryggju og fórum einnig á ströndina og lágum aðeins þar.
- Duttum inná ótrúlega skemmtilegar vintage búðir og thrift stores og keyptum okkur nokkra gullmola.
- Nutum okkar í uppáhalds hverfinu okkar þarna - El Raval (sem Helga og vinir hennar sögðu okkur svo að væri "hættulegasta/versta" hverfið í Barcelona - en reyndar bara ef maður fer langt inn í það sem ég efa að við höfum gert). Þar var allt iðandi af mannlífi, fullt af innflytjendum, þröngar og sjarmerandi götur þar sem föt héngu útá svölum nánast undantekningarlaust og fullt af skemmtilegum litlum búðum.
- Skoðuðum La Sagrada Familia að utan - ekki séns að við nenntum að bíða í 100 metra röðinni.
- Ég var góð kærasta og fór með drengnum á Barcelona leikvanginn Camp Nou og skemmti mér reyndar mjög vel, sérstaklega að lesa um sögu liðsins á safninu þar.
- Við fórum upp í Montjuic hlíðina (fórum ekki langt uppí fjallið) og skoðuðum Ólympíuþorpið.
- Fórum í Park Guell sem var hannaður af Gaudi, skoðuðum skemmtilega list hans og fengum flott útsýni yfir borgina í leiðinni.
- Borðuðum spænska smárétti (Tapas) - kaldan saltfiskrétt með grænmeti til dæmis.
Við urðum alveg heilluð af borginni. Hún er svo full af lífi og greinilega alltaf eitthvað um að vera, en við kíktum niðrí bæ og á pöbb á sunnudagskvöldinu og það iðaði allt af lífi! (Eitthvað sem maður myndi aaaldrei sjá í Vínarborg á sunnudegi). Gaman var líka að skoða mismunandi hverfi borgarinnar sem öll hafa sinn sérstaka stíl. Svo var svo gott að sjá sjóinn aftur. Ekkert smá gott að hafa strönd, fjöll og sjó. Eitthvað sem við söknum svolítið í Vín.
Borgin fór alveg fram úr mínum björtustu vonum og ferðin sjálf líka. Allt gekk eins og í sögu og langar mig helst að kíkja þangað aftur í nánustu framtíð...
Nokkrar myndir (sem þið eruð samt örugglega búin að sjá - en núna finnst mér svo tómlegt að hafa engar myndir með bloggfærslu þannig að þið fáið að sjá nokkrar aftur :)
Fallegt umhverfi í kringum La Sagrada Familia
styttan og fuglinn horfa saman yfir borgina
Eyþór í Ólympíuþorpinu
Ein af þröngu götunum í El Raval hverfinu
strákar í körfu í El Raval
Eyþór á leiðinni upp í Park Guell
ég á ströndinni - Barceloneta
Fleiri myndir á facebook, nenni ekki að setja inn fleiri..
No comments:
Post a Comment