Wednesday, April 27, 2011

Ljúfa páskafríið

Spáð var svaka fínu veðri yfir páskana og það rættist svo sannarlega.



Við fórum í Donaupark sem er held ég fallegasti garðurinn sem við höfum séð í Vín hingað til. Reyndar höfum við bara séð suma þeirra að vetri til þannig að það spilaði kannski smá inní að það var um 25 stiga hiti og sól og kannski líka að við vorum með ipod, bók, jarðaber, snakk og hvítvín með í farteskinu.

útsýnið frá legustaðnum (mæli með að þið stækkið, þetta var svooo fallegt útsýni!)

þarna ligg ég



rétt hjá garðinum voru Gyðingar að leik


á föstudaginn fórum við út og drukkum vín á Museumsquartier með nokkrum vinum í góða kvöldveðrinu

Páskadagur:
Þegar Eyþór veit af beikoni í húsinu þá verður hann spenntur eins og lítill krakki á nammidegi. Hann var búinn að hlakka til að búa til brunch handa mér, egg og beikon en varð fyrir miklum vonbrigðum þegar við föttuðum að við höfðum gleymt að kaupa egg daginn áður. Þar sem allt var lokað (og já meirasegja múslimabakaríið á horninu) þá reyndi ég að hressa drenginn við og kom með uppástungu að við myndum búa til eitthvað saman úr beikoninu sem þarfnaðist ekki eggja. Ég var nýbúin að sjá girnilega uppskrift á netinu og því fórum við í að búa til beikon - og ostabrauðbollur. 



Síðan voru þremur súkkulaðikanínum stútað næstu tvo daga en djöfull söknuðum við íslensku páskaeggjanna!


í páskamat var fylltur kjúlli og meðþví

í eftirrétt voru sjúklega góðar Súkkulaðiskjaldbökur

og svo var flippað með myndavél, þrífót og laserpenna

Vonandi áttuði góða páska og átuð aðeins meira en venjulega :)

Sunday, April 24, 2011

Barcelona - stutt ferðasaga

Þið eruð sennilega öll búin að sjá myndirnar frá ferðinni á facebook en mér fannst ég verða að skrifa einnig nokkur orð. 


Við röltum af stað með bakpokana okkar niðrá Südtiroler Platz sem er hér í göngufæri en þaðan fór rútan til Bratislava. Þó svo að við förum af og til í ferðalög hérna þá erum við ennþá fátækir námsmenn sem þurfa að fljúga með Ryan Air... En það flugfélag flýgur aðeins frá Bratislava flugvelli en hann er bara rúmum klukkutíma hérna frá þannig að það var ekkert mál. Við lentum svo í Girona sem er um einum og hálfum klukkutíma frá Barcelona (jájá Ryan Air flýgur á allra flottustu flugvellina... þessir tveir eru þeir allra minnstu sem ég hef á ævi minni komið á). Flugin með Ryan Air voru óaðfinnanleg og töskurnar komnar eftir 5 mínútur í bæði skiptin (kannski útaf því að það var ekkert annað í gangi á flugvöllunum þegar við komum) þannig að við höfðum engu yfir að kvarta. 


Þegar komið var til Barcelona rétt eftir miðnætti byrjuðum við á því að hringja vitlausri dyrabjöllu hjá manni sem tilkynnti okkur að Ally's Guesthouse væri í íbúðinni við hliðina. Graciela, eigandi gististaðsins tók á móti okkur og sýndi okkur íbúðina sína þar sem hún býr en hún leigir svo út 5 herbergi. Hún var um sextugt, spænsk en talaði góða ensku þrátt fyrir að ég átti erfitt með að skilja framburðinn hennar í byrjun. Við fórum tvær saman upp lyftuna þegar við komum fyrst á gistiheimilið, ég þreytt eftir ferðalagið og var ekki alveg að átta mig á framburðinum hennar. Hún byrjaði á því að segja eitthvað um lykilinn sem ég var ekki alveg að ná og svo sagði hún bara uppúr þurru "yes and then you gotta watch the big pockets". Ég var ekki að fatta um hvað hún var að tala en hún var víst að reyna að segja mér að passa mig á vasaþjófunum - hún átti semsagt við "pickpockets". Eftir vandræðalegar samræður spurði hún mig hvaðan ég væri og ég sagði henni það. Þá sagði sú gamla "hmm ok, well your English is very basic". 
Þarna var ég orðin hálfpirruð að skilja ekkert sem hún sagði (ég átti svo eftir að venjast enskunni hennar) og sagði "eeh no, my English is actually very good, I just don't understand your accent" - og sagði þetta með ameríska hreimnum sem ég á það stundum til að nota óvart. Greyið kellan beið þá bara eftir Eyþóri sem skildi hana aðeins betur. 
Gistiheimilið hennar var yndislegt og það beið okkar morgunverðarhlaðborð á hverjum morgni. Stemningin var ótrúlega notaleg og hinir gestirnir virkilega næs.


Áður en við fórum vorum við (eins og alvöru Íslendingar) búin að tjékka á veðurspánni og alla dagana voru ágætislíkur á rigningu. Morguninn eftir að við komum litum við útum gluggann og það var grenjandi rigning. Frekar svekkt ákváðum við að sofa aðeins lengur. Um klukkutíma síðar vöknuðum við og sólin komin á kreik - sem hélst svo á lofti næstum allan tímann og ekki einn einasti dropi lét sjá sig restina af dvölinni. Hitinn var mátulegur og veðrið tilvalið til borgarskoðunar.


Það sem við gerðum m.a.:

  • Hittum Helgu, æskuvinkonu Eyþórs sem er í vöruhönnunarnámi við IED skólann. Fórum útað borða með vinum hennar, fengum okkur strawberry daiquiri og kíktum á pöbb. Síðan bauð hún okkur í mat heim til sín og við nutum kvöldsins með henni og meðleigjanda hennar eitt kvöldið. Æðislega gaman að hitta hana og fræðast um líf hennar í Barcelona og gaman að fá fróðleiksmola um borgina, menningu Katalóníubúa og uppástungur um áhugaverða staði að skoða í borginni. 
  • Röltum endalaust! Notuðum undergroundið aðeins en við löbbuðum eiginlega allt (og náðum þá að sjá mikið af borginni)
  • Röltum niðrá bryggju og fórum einnig á ströndina og lágum aðeins þar.
  • Duttum inná ótrúlega skemmtilegar vintage búðir og thrift stores og keyptum okkur nokkra gullmola.
  • Nutum okkar í uppáhalds hverfinu okkar þarna - El Raval (sem Helga og vinir hennar sögðu okkur svo að væri "hættulegasta/versta" hverfið í Barcelona - en reyndar bara ef maður fer langt inn í það sem ég efa að við höfum gert). Þar var allt iðandi af mannlífi, fullt af innflytjendum, þröngar og sjarmerandi götur þar sem föt héngu útá svölum nánast undantekningarlaust og fullt af skemmtilegum litlum búðum. 
  • Skoðuðum La Sagrada Familia að utan - ekki séns að við nenntum að bíða í 100 metra röðinni.
  • Ég var góð kærasta og fór með drengnum á Barcelona leikvanginn Camp Nou og skemmti mér reyndar mjög vel, sérstaklega að lesa um sögu liðsins á safninu þar. 
  • Við fórum upp í Montjuic hlíðina (fórum ekki langt uppí fjallið) og skoðuðum Ólympíuþorpið.
  • Fórum í Park Guell sem var hannaður af Gaudi, skoðuðum skemmtilega list hans og fengum flott útsýni yfir borgina í leiðinni.
  • Borðuðum spænska smárétti (Tapas) - kaldan saltfiskrétt með grænmeti til dæmis.
Við urðum alveg heilluð af borginni. Hún er svo full af lífi og greinilega alltaf eitthvað um að vera, en við kíktum niðrí bæ og á pöbb á sunnudagskvöldinu og það iðaði allt af lífi! (Eitthvað sem maður myndi aaaldrei sjá í Vínarborg á sunnudegi). Gaman var líka að skoða mismunandi hverfi borgarinnar sem öll hafa sinn sérstaka stíl. Svo var svo gott að sjá sjóinn aftur. Ekkert smá gott að hafa strönd, fjöll og sjó. Eitthvað sem við söknum svolítið í Vín. 

Borgin fór alveg fram úr mínum björtustu vonum og ferðin sjálf líka. Allt gekk eins og í sögu og langar mig helst að kíkja þangað aftur í nánustu framtíð...

Nokkrar myndir (sem þið eruð samt örugglega búin að sjá - en núna finnst mér svo tómlegt að hafa engar myndir með bloggfærslu þannig að þið fáið að sjá nokkrar aftur :)

Fallegt umhverfi í kringum La Sagrada Familia

styttan og fuglinn horfa saman yfir borgina

Eyþór í Ólympíuþorpinu

Ein af þröngu götunum í El Raval hverfinu

strákar í körfu í El Raval

Eyþór á leiðinni upp í Park Guell


ég á ströndinni - Barceloneta

Fleiri myndir á facebook, nenni ekki að setja inn fleiri..

Tuesday, April 19, 2011

Í gær átti ég afmæli

..og í tilefni þess gerðum við Eyþór okkur glaðan dag. 


Ég kíkti í ræktina um hádegisbil og þegar ég kom aftur heim biðu mín rauðar rósir og súkkulaði. 


Það var fallegur dagur í Vín, um 18 stiga hiti og notaleg sólin kíkti við af og til. Fyrst lá leiðin í lunch en við fengum okkur billegt sushi sem er í boði á Favoritenstrasse sem er göngugatan sem er hérna rétt hjá húsinu okkar.


Eftir það tókum við Strassenbahn í skemmtigarðinn Prater og fórum í Parísarhjólið (eða Riesenrad hér á vínarísku) þar sem við höfðum aldrei farið í það áður og það er víst "must" fyrir alla að upplifa sem heimsækja Vín. Þrátt fyrir smá "sjó"veiki þá nutum við útsýnisins og drengurinn tók helling af myndum.


Þar sem veðrið var svo indælt langaði okkur að borða úti og ákváðum að fara á Heuriger í úthverfi Vínar. Ég man ekki hvort ég hef sagt frá Heuriger stöðunum áður en þetta eru semsagt fjölskylduveitingastaðir þar sem vínbændur selja afrakstur sinn og hafa vínarískt hlaðborð einnig í boði þar sem maður borgar eftir vigt. Það eru fullt af svona stöðum í úthverfum borgarinnar og einnig í litlum þorpum rétt fyrir utan hana. Við tókum lest í 21.hverfi og lentum á stað sem gæti frekar verið lítið þorp, það var ekkert sem minnti á Vín, aðeins lítil og sæt hús og varla fótgangandi maður á ferð. Við nutum matar, víns, veðurs og útsýnis í fallegum garði veitingahússins. Þar sem maður átti nú eitt sinn afmæli, þá var ekki hægt að sleppa eftirrétt. Við tókum því lestina aftur í miðborgina og fórum á pönnukökustað þar sem þeir framreiða "Palatschinken" eins og það kallast en er eiginlega alveg eins og crépes. Þar er hægt að fá slíkar pönnukökur í aðalrétt með allskonar fyllingu en við létum þær sætu duga í þetta skiptið.


Ath! Endilega klikkið á myndirnar og stækkið til þess að sjá í eðlilegri stærð, þær njóta sín miklu betur þannig, það tekur enga stund :) Þegar Blogspot minnkar þær þá virðast þær svo óskýrar...





klefarnir í Riesenrad

útsýnið úr hjólinu








Eyþór á Heuriger

vínviðurinn á akrinum


Pönnukökustaðurinn niðrí bæ

ein með nutella og vanillusósu

og þrjár með ávöxtum, súkkulaðisósu og ís

Enn einn indælisdagurinn í Vín :)

Sunday, April 17, 2011

Roh und Deutsch Abend mit Anna

Austurríska vinkona mín hún Anna er dugleg að útbúa hráfæðismat og bauð mér í heimsókn til að læra nokkur trix. Ég spurði hvort við gætum reynt að tala þýsku allt kvöldið þar sem ég tala ensku við flesta austurrísku vini mína, þar sem ég er stundum soldið feimin að tala þýsku (svo er enskan hennar Önnu mjög góð enda vann hún einhverja svaka enskukeppni sem haldin er árlega í Graz, í 5 daga þar sem prófessorar frá Oxford koma og dæma og hægt er að vinna stóra peningaupphæð...sem hún gerði). 


Allavega, við gerðum fylltar paprikur með tvenns konar fyllingu og kókosköku með "nutellafyllingu" og vanillukremi.  Útkoman smakkaðist undurvel og gamli matargikkurinn er greinilega týndur og tröllum gefinn þar sem ég meirasegja borðaði hrátt sellerí. Klapp fyrir mér? 


 allt reddí í kökuna

fallega græni gítarinn hennar Önnu

hnoða deigið

og fallega Kitchen Aid vélin (sem var þó ekkert notuð) og sólblómafræin


nei þetta eru ekki hamborgarar... heldur botnar í kökuna

verið að búa til fyllingu í paprikurnar

maturinn reddí

kaloríubomban - endalaust af hnetum í þessari en góð var hún

Anna heimtaði að ég tæki með mér afganga heim fyrir drenginn

flotta Polaroid myndavélin sem mamma Önnu átti þegar hún var ung

Friday, April 15, 2011

Í dag var mín heitasta ósk að komast á Þjóðarbókhlöðuna...


og ástæðan fyrir því er fáránlegt bókasafnskerfi Vínarháskóla, sem ég mun segja ykkur frá í smáatriðum hér rétt á eftir. Spennandi ekki satt?

Til að byrja með eru nokkur kynningaratriði:
  1. Næstum því hver deild innan Vínarháskóla er með sitt eigið bókasafn. Jebbs, það eru 49 bókasöfn á vegum háskólans á víð og dreif um borgina. Það eru nær engar bækur til sýnis í aðalbókasafninu, og því þarf maður að panta allar þær bækur sem maður vill skoða eða fá lánaðar. 
  2. Maður pantar þær á innra neti bókasafnsins og svo eru sérstakir útlánstímar þar sem maður mætir og sækir bókina sína. Þú getur ekki bara mætt hvenær sem er og athugað hvort þeir eigi tiltekna bók heldur ferð þú vinsamlegast aftast í röðina (oftast svona 15 manns á undan manni) og bíður rólega í steikjandi hitanum þarna inni.
  3. Þegar þú kemur inn á bókasafn, ekki dirfast að ganga þar inn í úlpunni og með tösku. Þó maður sé ekki einu sinni að fara læra, aðeins að fara ná í 2 bækur og drífa sig út aftur þá þarf maður að vera með 2 evrur á sér, setja þær í skáp, setja allt draslið inn í skápinn og þá ertu gjaldgengur til útláns á bók

Ég er í söguáfanga þessa önn sem fjallar um The Great Terror in the Soviet Union 1936-1938 og þar ætla ég að skrifa um Women in Stalin’s Soviet Union. Kennarinn sendir þá lista yfir bækur sem henta umfjöllunarefni hvers og eins, en ekki mikið er um greinar í erlendum tímaritum sem ég nota oftast (og hægt er að nálgast á internetinu). Ég fékk listann og hann sagði að bækurnar ættu flestar að vera til á bókasafni sögudeildarinnar.

Í dag lagði ég svo leið mína upp í skóla. Bókasafnið er víst staðsett á efstu hæð aðalbyggingar og þangað labbaði ég og náði næstum því að finna réttan stað, en nei, ég komst að glerhurð þar sem ég sá bókasafnið inni en hurðin var læst. Ég nennti ekki að leita að rétta inngangnum og ákvað eins og ég á það mjög oft til – að leita mér hjálpar í nánasta umhverfi. Bankaði á hurð einhvers prófessorsins sem staðfesti það að ég væri á kolvitlausum stað en sagði að hann lumaði nú á lykli að þessari glerhurð. Jæja, þá var ég loksins komin inn. Eftir 2 klst af leit og hjálp frá svona 5 manns náði ég að fá lánaða eina bók (af svona 7 sem voru á listanum) en komst að því að sögubókasöfnin (já þau eru nokkur) lána bara út bækur yfir helgi. Hvurs lags...? En þar datt ég í lukkupottinn þar sem það er að koma páskafrí og konan tilkynnti mér að ég mætti hafa hana þar til eftir páskafrí (ég hitti svo vinkonu mína í hádegismat stuttu eftir þetta og hún var í sjokki yfir þessu “you really got a book at the history library to take home for 2 weeks??!! Ohhh i HATE the history library, i never go there because of this).

Þar sem ég náði aðeins einni bók útúr þessari ferð, þá fór ég á netið og náði að panta 2 bækur frá aðalbókasafninu (ef ég hefði verið að panta svona klst seinna þá hefði ég ekki geta sótt bækurnar fyrr en eftir helgi..). Hins vegar var mér bent á að fara í Austur-Evrópu sögubókasafnið sem væri hérna nokkrum götum frá. Ég fór þangað (að ég hélt), fékk lykil að skáp, skellti úlpunni og öllu draslinu inní skápinn og fór svo inn. Var þar að reyna að leita af bókum, skildi ekki neitt og spurði því bókasafnsvörðinn. Hún benti mér á að þetta væri Austur-Asíu bókasafnið. Jæja... þá labbaði ég smá spöl og komst loksins á rétta bókasafnið, þurfti að sjálfsögðu að fara í gegnum allt skápadæmið aftur og náði í nokkrar bækur. Tók svo tramminn aftur í aðalbygginguna þar sem mér var tilkynnt eftir sveitta bið að það væri aðeins ein bók tilbúin fyrir mig. Ég gæti komið kl.4 og náð í hina (kl. var 3). Þarna var ég alveg komin með uppí kok af þessum bókasöfnum og dreif mig heim.

Á leiðinni heim hugsaði ég hvað ég væri ótrúlega fegin að hafa tekið þá ákvörðum að skrifa BA ritgerðina heima í sumar á elsku bestu einföldu Hlöðunni.

P.s. Lærdómur dagsins: Starfsfólk bókasafna er upp til hópa gríðarlega vinalegt og hjálplegt. Það er eitthvað við þetta fólk..heima á Borgarbókasafninu var ég t.d. stundum með skuldir vegna DVD mynda eða bóka og í hvert einasta skipti lækkaði bókasafnsvörðuinn skuldina. Bara svona útaf engu.

og nú ligg ég og glugga í spennandi bækur sem ég hafði uppúr krafsinu.