Monday, November 1, 2010

Háskólinn í Vín

Universität Wien er elsti háskóli í þýskumælandi Evrópu (stofnaður árið 1365) og er einn stærsti háskóli Evrópu. Þetta haustið nema um 74þúsund manns við skólann! Þessi talan hljómar fáránlega (á wikipedia stendur meirasegja 85þúsund en ætli talan rokki ekki milli ára) en þetta var mér sagt á háskólakynningu fyrsta daginn minn í Vín. Skólinn hefur að geyma byggingar á um 60 stöðum um alla Vínarborg. Aðalbyggingin er gullfalleg, að innan sem utan þrátt fyrir að stofurnar séu fremur óspennandi. Ég er í þremur tímum hérna (er svo að taka einn í fjarnámi við HÍ) og þeir eru allir mjög spennandi; Nationalism in Central and Eastern Europe, EU immigration and integration  policy og Transformation and transition in Greater China. Ég er í fyrstu tveimur kúrsunum einu sinni í viku og svo er ég í China kúrsinum annan hvern laugardag (jibbbíí...). Allir kúrsarnir eru kenndir á ensku, sem betur fer, því þýskan mín er ekki næstum því nógu góð enn. En við erum að vinna í því...

Hér sést í dyrnar á stofunni sem ég er í í Aðalbyggingunni


Það er ýmislegt frekar spes við skólann. Ég bjóst við, fyrst þetta er svona gamall og virðulegur skóli að ég yrði með gamla gráhærða prófessora með gleraugu (ok kannski ekki alveg en þið skiljið..) en ég er ekki með einn kennara eldri en svona 35 ára og varla það.. þau eru öll um svona þrítugt! Allt nýútskrifaðir doktorsnemar sem eru að kenna kúrsa sem fjalla um þeirra rannsóknarsvið eins og við má búast. Þau eru samt öll mjög klár og kunna mikið í sínu fagi greinilega.

Annað sem er spes er að skólinn er mjög svo eftir á í alls konar málum. Ég hef enn ekki séð tölvu á kennaraborðinu sem tengd er við slide show tæki, en það er svosem ekki nauðsynlegt þar sem allir kúrsarnir mínir eru eins konar umræðutímar. Maður VERÐUR að mæta vel lesinn og undirbúinn í hvern tíma þar sem kennarinn getur poppað á þig spurningu um lesefnið sem þú þarft að geta svarað á gagnrýninn hátt fyrir framan alla og helst spunnið einhverjar umræður úr því. Í lok hvers tíma er hefð fyrir því að allir banka í borðið sitt, til að sýna kennaranum og tímanum virðingu (haha wtf..hugsaði ég í fyrsta tímanum mínum). Öll námaðstaða er til skammar miðað við fjölda nemenda og einnig mataðstaða. Það eru ENGIN hópverkefnaherbergi og engin borð þar sem hægt er að setjast niður og læra saman. Þú getur farið á bókasafnið í aðalbyggingunni en þar þarftu fyrst að sækja lykil í afgreiðslunni, svo fara í skápaherbergið og setja allt dótið þitt inn í skáp áður en þú ferð inn í lesstofu. Aðeins er leyfilegt að taka með nauðsynlegt lesefni, tölvur, blöð og slíkt sem tengist lærdómi. Engar vatnsflöskur, töskur, úlpur eða slíkt. Og já það eru “verðir” þegar þú labbar inn í lesstofuna sem fylgjast með þessu. Svo geturðu bara prentað í þessari byggingu, ljósritað í hinni ogsvoframvegis. 2 kúrsarnir mínir eru í nýrri byggingu rétt hjá Aðalbyggingunni og einn kúrs er í henni sjálfri. Í aðalbyggingunni er engin mataðstaða, en í nýju er matsalur en það er hvergi hægt að hita upp nestið sitt né grilla sér neitt.

Þetta er lesrýmið á bókasafni Aðalbyggingar háskólans (hvergi eru veggir sem skilja að hvern og einn eins og er heima í öllum lesstofum)


Helgarnar eru svo sérkapituli útaf fyrir sig sem og skráningakerfið í kúrsana. Það er opið í byggingunum á laugardögum en ef þig langar að prenta út eða sinna almennum þörfum þínum, t.d. að fara á salernið geturðu gleymt því. Það er greinilega enginn sem kemur og tjekkar á stöðunni þarna um helgar því pappírinn er alltaf búinn í prentarann eða allir bilaðir nema einn. Það er ALDREI klósettpappír til á neinu klósetti í nýju byggingunni þannig að ég er farin að taka með mér ef ég fer þangað á laugardögum (kveðja, pissóðasta manneskja sem þið öll sennilega þekkið).  Að sjálfsögðu er svo lokað í skólanum á sunnudögum þar sem Austurríkissmenn taka þann dag mjög heilagan (jeje..það er bara ennþá verið að halda í gamlar hefðir, ég vil ekki meina að þeir séu svona trúarlegir).

Já og skráningakerfið.. Það skrá sig allir í þá kúrsa sem þeir vilja og svo er bara  eitthvað random kerfið hvort þú kemst í kúrsana eður ei. Ég sem betur fer komst inn í alla kúrsana mína og vissi því ekki af þessu vandamáli fyrr en ég mætti í fyrsta tímann minn. Þar hitti ég stelpu frá DK sem sagðist vera á biðlista og var að vonast til þess að geta verið í tímanum. Það voru sæti fyrir svona 50 manns þarna inni, við vorum allavega 70 í fyrsta tímanum þannig að fólk kom sér bara vel fyrir á gólfinu. Kennarinn las upp listann með skráðum nemendum, þeir sem voru ekki mættir voru köttaðir út á staðnum. Hún sagði um 100 nemendur á biðlista og þeir sem mættu ekki í fyrsta tímann fengu ekki að vera með. Þegar hún var komin uppí 45 nemendur sagði hún “jæja þið hin sem ég hef ekki lesið upp, ég á 5 laus sæti eftir í þessum tíma”. Nokkrir skiptinemar réttu upp hönd (þar sem við eigum að ganga fyrir þar sem Vínar-nemendurnir geta tekið kúrsinn seinna en við ekki) og tóku síðustu lausu sætin í tímanum. “The rest of you, please step out of the classroom”. Semsagt; fáránlegt kerfi sem sífellt er verið að mótmæla af nemendum og sérstaklega undanfarnar vikur. Það eru búin að vera “demonstration” (skipulögð mótmæli) gegn nýju frumvarpi og skerðingu á réttindum nemenda allavega nokkrum sinnum síðan skólinn byrjaði og þau ætla að gera það amk. 1x í viku þangað til eitthvað gerist. Ætli maður geti ekki verið ágætlega sáttur bara með Háskóla Íslands...

Gatan sem liggur á milli Aðal - og nýju byggingarinnar sem ég er í 


Ég mun taka eitt lokapróf hér úti og það verður munnlegt (sem er ekki beint uppáhalds fyrir ritgerðaróða stelpu sem nær oft ekki að tjá það sem hún hugsar munnlega heldur vill öllu heldur geta hugsað fyrst, sett niðrá blað og svo lagað eftir hentisemi). Í hinum tveimur áföngunum er stór ritgerð og fyrirlestur en ekkert próf. Já og ég má skila þessum ritgerðum í lok febrúar (en haustönnin endar samt í lok janúar). Austurrísku krakkarnir sem ég er búin að kynnast í tíma sögðu mér að það væri mjög eðlilegt. Stundum er lokafresturinn fyrir ritgerð á haustönn í svona júní á næsta ári... já einmitt, mjög eðlilegt. Einnig hafa þau sagt mér að einkunn kemur stundum ekki inn fyrr en svona 3-4 mánuðum eftir próf/námskeiðslok. Djöfull hlakka ég til að eiga við LÍN eftir áramót!

...já og talandi um LÍN. Heima á Íslandi er mjög eðlilegt að námsmenn sem ekki búa í foreldrahúsum taki fullt lán allar annirnar sínar, þrátt fyrir að vinna líka eitthvað með skólanum. Hér tíðkast það alls ekki. Þýskumælandi löndin eru víst ekki jafn lánóðir og við Íslendingar en austurrísku skólafélagar mínir sögðu að ríkið gæfi þeim pening og svo vinna þau líka með skóla. Sú danska var einnig mjög hissa “WHAT? THE GOVERNMENT DOESN’T GIVE YOU MONEY SO YOU CAN GO TO SCHOOL???” Een ég ætla þó ekki að kvarta, eftir að hafa heyrt sögur af austurríska grunnskólakerfinu þá er það íslenska nokkuð gott bara miðað við það (nenni ekki að fara út í þá sálma núna en það er fáránlegt grunnskólakerfið hérna og í Þýskalandi veit ég líka).


Aðalbyggingin að utan

Ég er samt mjög ánægð í skólanum hérna þrátt fyrir að hann sé spes að ýmsu leiti. Krakkarnir eru mjög fínir sem og kennararnir og mér finnst námsefnið mjög spennandi! Gaman að geta tekið áfanga sem eru öðruvísi en heima og ekki í boði þar, sem og að heyra reynslur og sjónarmið nemenda frá öðrum löndum.

Viele grüsse,
Vala (jebb nýjasta nickname-ið, ég nennti ekki að standa í Valgerður og Val finnst mér of amerískt...)

myndir frá Wikipedia, Eyþóri og einhverjum Peter sýnist mér


6 comments:

  1. Mahahaha með klósettpappírinn með sér, hver önnur. Já held að okkar aðstaða í HÍ sé bara ágæt, en byggingarnar þarna í Vín vissulega mun fallegri!
    Skemmtilegt blogg, þarf smá tíma í að venjast nýja nick-inu.

    ReplyDelete
  2. gaman að lesa :)

    Sæunn

    ReplyDelete
  3. Er ekki e-r hugmyndakassi þar sem þú getur komið því á framfæri hvernig hægt sé að betrumbæta skólann? Það væri algjör snilld, litla íslenska stelpan ætti að koma því af stað :)

    ReplyDelete
  4. Gaman að lesa Valgs mín & fyndið með bankið í borðið :) haha

    ReplyDelete
  5. gaman að lesa besta systa! og já, svolítið sérstakt sumt þarna. een það er bara gaman. vertu svo dugleg að blogga :))

    ReplyDelete
  6. haha Edda mín, það vita allir nemendurnir hvernig hægt er að betrumbæta skólann, þess vegna eru endalaus mótmæli í gangi :)

    ReplyDelete