Það er gaman að flytja til nýrrar borgar og virða mannlífið fyrir sér og reyna að finna skemmtilega og óskemmtilega siði borgarbúa. Hér eru nokkrir punktar sem við höfum tekið eftir í fari Vínarbúa (ég vil síður nota “Austurríkismenn” því mikill fjöldi Vínarbúa eru ekki innfæddir Austurríkismenn. Ég heyrði tölu um daginn en ég man hana ekki, það var há tala sem lýsti því hversu margir Vínarbúar eru í raun ekki frá Austurríki).
1. Græni kallinn: Hér virðist fólk taka umferðarreglum mjög alvarlega (sem að sjálfsögðu allir ættu að gera). Þegar fólk bíður eftir að ganga yfir gangbraut og rauði kallinn er sýnilegur en alls enginn bíll sjáanlegur í nokkurri fjarlægð, þá er beðið ALVEG þangað til græni kallinn mætir. Og þó að rauða ljósið sé komið hjá bílunum, neinei ekki voga þér að ganga yfir fyrr en sá græni sýnir sig. Við höfum bæði lent í smá uppákomum varðandi þetta, en um daginn skaust Eyþór yfir litla götu þegar rauði kallinn var á en engvir bílar sjáanlegir og labbaði beint í flasið á lögreglumanni sem skammaði hann (heldur hann – hann sagði allavega eitthvað á þýsku) og Eyþór sagði skömmustulega “entschuldigung” og dreif sig í burtu. Mitt atvik með rauða-græna kallinn var aðeins alvarlegra og hefði geta endað mjög illa. Ég var búin að vera í mánuð í Bandaríkjunum þegar ég var þar skiptinemi 17 ára gömul og ákvað að prófa hjólið sem þau gömlu (fósturforeldrarnir amerísku) áttu. Ekki alveg nógu góð hugmynd þar sem það var (ég endurtek VAR þar sem það gjöreyðilagðist eftir hjólatúr ljóshærðu íslensku stelpunnar) 3ja gíra eldgamalt hjól með FÓTbremsum. Veðrið var gott þrátt fyrir að komið væri fram í byrjun október og ég fór á stuttbuxum og bol í hjólatúr til þess að skila spólum á vídjóleigunni. Þegar kom að stórum gatnamótum rétt hjá vídjóleigunni ákvað stelpan frá saklausa Íslandi að hjóla yfir götuna þrátt fyrir helvíts rauða kallinn sem varaði mig við því. Að sjálfsögðu var “enginn bíll” nálægur þannig að ég ákvað að drífa mig yfir. Það fór þannig að það kom bíll keyrandi á svona 50 km hraða og keyrði á mig, ég skaust um 4 metra uppí loftið (mér var sagt það eftir á að kall sem var að vinna þarna rétt hjá hafi séð mig á hvolfi um 4 metra uppí lofti) lenti á húddinu á bílnum og hjólið dúndraðist út í vegakant. Einhver dró mig út í vegakant á meðan ég reyndi að malda í móinn við mannfjöldann í kringum mig “I don’t need an ambulance, please” en það gekk ekki neitt og ég var sett í hálskraga og læti og keyrð upp á spítala. Ég var heppin og endaði bara með 700 skrámur á fótleggjunum og fjólublátt mar á stærð við matardisk á lærinu, allt annað var í góðu lagi! Fannst langverst að missa af off-season körfuboltaæfingum... Ég lét mér þetta að kenningu verða og fór aldrei yfir á rauðum kalli eftir þetta (Edda Rós getur vottað það þar sem ég öskraði á hana við hvert tækifæri þegar hún ætlaði að hlaupa yfir á rauðum kalli þegar við vorum saman í Seattle). Ég viðurkenni þó að ég svindla af og til með þetta hérna í Austurríki, en ég ætla að taka mig á svo að ég lendi ekki die Polizei...já eða þá í slysi.
2. Ókrifaða regla veitingastaða hunsuð: Við höfum lent nokkrum sinnum í því að fá matinn okkar ekki á sama tíma þegar við förum út að borða hér í Vín. Einn er alveg að klára matinn sinn þegar hinn fær sinn. Nefndi þetta við skiptinemavini mína hérna og jújú, þau höfðu lent í þessu líka. Ekki töff..
3. Drengja-augabrúnaplokkun: Já þið lásuð rétt. Við höfum séð fullt af unglingsdrengjum (sem flestir virðast vera af tyrkneskum uppruna – ég er ekki að reyna að vera með fordóma en tyrkir eru stærsti innflytjendahópurinn hérna) sem eru með svartar augabrúnir og bara svakalega vel mótaðar! Fleiri vinir okkar hafa tekið eftir þessari tísku unglingsdrengjanna sem er afar fyndin að okkar mati.
4. Hlaupahjól: Í Vín er algengt að sjá fullorðið fólk á hlaupahjóli. Það virðist ekkert jafn sjálfsagðara og að fullorðið fólk þeyti sér áfram á þessum tryllitækjum. Ég held ég myndi deyja úr hlátri ef ég sæji mömmu mína bara í fullri alvöru hendast niður hafnagötuna á leið í Cabo, á hlaupahjólinu sínu. En einhvern veginn finnst manni þetta bara nokkuð eðlilegt í stórborginni.
5. Hártíska Vínarfrúa: Eyþór er virkilega hrifinn af þessu atriði. Hann er sífellt “í sjokki” yfir hártísku gömlu kellinganna hérna. Alltaf bendandi mér á gamlar konur með fjólublátt hár, ein var með ljóst hár en vínrauðan topp, ein var með alvöru röndótt hár, brúnt og svart hár og svo lengi mætti telja.
6. Raðir: Ykkur finnst Íslendingar ekki kunna að standa í röð? Komið til Vínar. Hér er ruðst framfyrir mann eins og fólki sé borgað fyrir það. Og sérstaklega gamla fólkið! Þykist ekki sjá ykkur í röðinni og drífa sig framfyrir þegar þú horfir eitthvert annað. Nú er ég alltaf svellköld þegar ég bíð í röð, það dugir ekkert að vera glápandi útí loftið eða skoða ipodinn sinn. Hér eftir er ég alltaf á tánum í röðum, læt ekki ryðjast fram fyrir mig framar!
Þetta er það helsta sem við höfum tekið eftir varðandi hegðun Vínarbúa, kem með fleiri atriði þegar ég hef búið hér lengur..
Hahaha elsku elsku Valgerður og græna-kalla incidentið! En já ég varð hálfhrædd við þig þegar ég ætlaði mér yfir á rauðu. Get samt verið fullkomlega sammála atriði 1,2 og 3 þar sem þau tíðkuðust líka á Ítalíu. Fáránlega furðulegt með veitingastaðina....
ReplyDeleteskemmtilegt hah :)
ReplyDeleteómæ valgó, ég hafði aldrei heyrt almennilega söguna af slysinu þínu í ameríku! hafði bara séð marblettinn á myndum.. haha. shit hvað þetta hljómar illa! við höfum greinilega verið svipað heppnar þarna í feitu ameríku....
ReplyDeleteog ég hló líka upphátt við ímyndunina af mömmu á hlaupahjólinu á leið í cabo! hahaha