Wednesday, November 10, 2010

Föstudagsdeit

Föstudagar eru uppáhaldsdagarnir okkar Eyþórs í Vín. Þá förum við út og nýtum okkur það sem Vínarborg hefur uppá að bjóða (jújú við gerum það svosem líka á öðrum dögum en föstudagar hafa óvart orðið deit-dagar).

Föstudagur 1:
Einn föstudaginn fórum við í lunch á Cafe Central (af hverju er svo miklu meira “fab” að segja lunch? - hádegisverður er eitthvað svo leiðingjarnt orð). Cafe Central var fyrst opnað árið 1860 og í lok 19. aldar varð það aðal samkomustaður “merkilegra” Vínarbúa. Staðurinn heldur minningu þeirra á lofti þar sem spjöld standa á  sumum borðum með myndum og upplýsingum um þessa merku menn. Meðal velunnara staðarins voru Trotsky, Freud og fleiri listamenn sem þið kannist örugglega ekki við. Lenín og Hitler kíktu einnig þangað af og til (en ég efast um að þeim sé gert hátt undir höfði og splæst í spjald þarna). Allavega.. staðurinn var mjög flottur og skemmtileg stemning þrátt fyrir mikinn fjölda túrista þarna inni. Það er örugglega ennþá skemmtilegra að fara þangað að kvöldi til, en það er píanóleikur á staðnum um kvöldmatarleytið.

Þessi sjéntilmaður tók á móti okkur á Cafe Central

Hestarnir í forgrunni, við heyrum í þeim af og til fyrir utan gluggann okkar.


Eftir að hafa nærst, fórum við í Prater, skemmtigarðinn (tívolíið) í Vín. Við skemmtum okkur konunglega og öskraði ég (eða ok við...) úr mér lungun í flestum tækjunum.
Við enduðum daginn á að fara í Naschmarkt sem er aðal útimarkaðurinn. Þar er endalaust af fersku grænmeti og ávöxtum (m.a. hunangsmangó sem okkur langaði svo í en týmdum ekki að borga 1300 kr. fyrir eitt stykki). Þar er einnig fullt af fiski og kjöti, þurrkuðum ávöxtum, hnetum og meira gúmmelaði. Inn á milli eru nokkrir veitingastaðir og barir og svo eitthvað af fótboltatreyjum og slæðum...the usual. Uppáhaldið mitt eru mjúkustu og stærstu döðlur veraldar fylltar með valhnetu. Sjæse hvað þær eru góðar!







Föstudagur 2:
Annan föstudag ákváðum við að kíkja út fyrir landsteinana. Það er “möst” að fara yfir til Slóvakíu þar sem höfuðborg hennar, Bratislava er aðeins um 60 km frá Vín sem gerir þær að nálægustu tveimur höfuðborgum í Evrópu. Við tókum lest til Bratislava á fallegum og sólríkum haustdegi og þar biðu okkar hjálpsamir Slóvakar sem hjálpuðu okkur að taka réttan strætó niðrí bæ. Borgin er frekar lítil, en þar búa um 430.000 manns. Danube áin skiptir borginni í tvennt, þar sem einum megin er gamli sögulegi bærinn og hinum megin standa Sovétblokkir og gnæfa yfir borgina eins og gamall draugur (ljóðræn ekki satt?). Við héldum okkur mest í gamla bænum, löbbuðum upp að kastala þar sem við borðuðum hádegismat (nú eða lunch) á veitingastað með svaðalegu útsýni yfir alla borgina. Sötruðum á hvítvíni í sólinni og horfðum á starfsmenn veitingastsaðarins skreyta útitjaldið sem átti sennilega að vera tilbúið fyrir brúðkaup kvöldsins. Við eyddum deginum bara í rölt og át og fórum aftur til Vínar rétt eftir kvöldmatarleytið.







Föstudagur 3:
Ég ákvað að koma ástmanninum á óvart og hafa “surprise föstudags-deit”. Byrjaði á því að lokka hann í það sem hann hélt – ræktina en stoppaði hann af rétt áður en ræktar-stoppistöðin kom. Við héldum áfram með lestinni og fórum í það sem leit út fyrir að vera einhvers konar “country-club” en var í raun Sporthotel (hótel þar sem ýmsar íþróttir eru í boði fyrir gesti). Ég hafði pantað tennistíma fyrir okkur þar sem drengurinn er orðinn (og ég reyndar) mjög áhugsamur um þá íþrótt eftir að hafa lesið ævisögu Andre Agassi. Við höfðum aldrei prófað að spila tennis þannig að við litum ekki alveg nógu vel út þarna í kringum alla góðu gamlingjana sem kíkja þangað af og til og spila við félagana. Það var samt mjög gaman að prófa og við myndum pottþétt kíkja oftar ef þetta væri ekki svona fjandi dýrt. Eftir tennis var enn einn “lunchinn”. Ég dró Eyþór inn á organic grænmetisstað í uppáhalds hverfinu okkar sem einnig hefur að geyma bestu lífrænu búðina mína og við átum okkur alsæl og södd. Síðast á dagskrá var globe-museum en hér í Vín er stærsta samansafn af hnattlíkunum í heiminum. (Við erum bæði aðdáendur hnattlíkana og langar mjög í einn vintage hnött í framtíðarbúið). Þarna voru endalaust af hnöttum, af öllum stærðum og gerðum og margir mjög fallegir. Um kvöldið fórum við svo á tónleika í Karlskirche, sem er ein af milljón fallegu kirkjunum hérna. Þar var um 10 manna strengjahljómsveit (mínus einn á píanó eða einhverja skrítna útgáfu af píanó) sem spilaði fyrir okkur Fjórar árstíðir Vivaldi ásamt nokkrum öðrum klassískum verkum. Ég hafði greinilega ekki lært af reynslunni frá því í Prag fyrir um 8 árum þegar ég ásamt fiðluvinkonum og mæðrum fórum á tónleika í kirkju þar í borg. Við vorum allar að frjósa úr kulda allan tímann, og ég man að ég hugsaði "ef ég einhvern tímann fer aftur á tónleika í gamalli kirkju þá SKAL ég klæða mig vel!". Ég hafði þó ekki gleymt þessu, en í einhverri heimsku lét ég sjálfa mig trúa því að það yrði ekki svona kalt í þessari kirkju, hún myndi gefa kuldaskræfunni mér smá séns. Ekki varð úr því og ég sat með hendurnar undir rassinum og fætur krosslagðar allan tímann. Tónleikarnir voru þó ljúfir og passlega langir (drengurinn hefði ekki getað meir af fiðluspili held ég...).









Kv,
V.

p.s. er að prófa að hafa myndirnar aðeins minni.. veit ekki hvort er þægilegra að hafa þær svona eða stærri?


12 comments:

  1. Hæhæ skvís...hef verið að fylgjast með þér hérna á blogginu;)Er einmitt alltaf á leiðinni að opna blogg sjálf! gamana að fylgjast með ævintýrinu og gangi þér ótrúlega vel úti :)
    kv. Bergey

    ReplyDelete
  2. Hey snilld, var einmitt að lesa í sögu sálfræðinnar um einhverja gamla heimspekinga í Vín sem hittust reglulega á Cafe Cental ;)

    Gaman að lesa, er að meta föstudags-kæró-deitin ;)

    ReplyDelete
  3. gaman að því Bergey, takk fyrir það og sömuleiðis! Væri gaman að sjá hvað þú ert að gera í Bretlandi :)

    og naujj er það Heiða?? sniðugt! nefndi kennarinn ekki einmitt líka að það væri nauðsynlegt fyrir verðandi sálfræðinga að fara til Vínar og upplifa aðal samkomustað merkustu sálfræðinga sögunnar?

    ReplyDelete
  4. Hahaha jú það er einmitt predikað í tímum, allir til Vínar! Læt ekki segja mér það tvisvar. Vil anda að mér sama lofti og þessi eðalmenni.

    ReplyDelete
  5. Þvílíkur draumur í dós Valgerður.. það hlýjar mér í frostinu hérna heima að sjá hvað er gaman hjá ykkur úti og hvað þið eruð dugleg að skoða og gera skemmtilegt.

    P.s. Ég er að fíla skyrtuna þína á næstneðstu myndinni!

    ReplyDelete
  6. Heiða, þetta er skalfest. Dýnan góða bíður þín..

    já Ester, þessi borg er svo æðisleg, við erum alveg í skýjunum með hana!

    og takk fyrir það, þetta er eflaust skyrta af einhverri gamalli Vínarfrú, fékk hana í einhverri thrift-store hérna á 3 evrur, var nokkuð ánægð með þau kaup :)

    ReplyDelete
  7. mjög fallegir hnettir... og skemmtilegt blogg og líka seinasta blogg og bara já allt svo skemmtilegt!! ;)

    ReplyDelete
  8. Elska þessi föstudagsdeit, hvar væru þau meira kósý en í Vín? Ég myndi gjarnan vilja sjá ballettmyndir :)

    ReplyDelete
  9. það mátti ekki taka myndir af balletnum :( en hinar stelpurnar tóku myndir af okkur þar samt

    -valg sem nennir ekki að skrá sig inn

    ReplyDelete
  10. Ohh Valgerður ég er orðin háð blogginu þínu.. Æðislegt að sjá hvað þið hafið það rómó.
    Enda sér maður frá þessum myndum hvað Vín er spennandi borg sem hefur upp á margt að bjóða
    Kv. Helga Dagný

    ReplyDelete
  11. já þessi borg sú rómantískasta sem ég hef komið til, enda sjáum við í hvert einasta skipti sem við förum í lestina fólk í sleik/faðmlögum (við höfum örsjaldan orðið sek um þetta sjálf)

    Helga, þið ferðasjúklingarnir verðið bara að setja mið-Evrópu næst á dagskrá ;)

    -Valgerður

    ReplyDelete
  12. Vá en æðislegur dagur! Mikið hljómar þetta allt fullorðins og menningarlegt.. Ég væri mikið til í að vera gera þetta í staðinn fyrir Hámulunch og Oddaglens ;)
    knus, Hildur Guðbjörg

    ReplyDelete