Friday, November 26, 2010

Draper og karamellufrappó



Ég er rosalega léleg í að koma með sniðugar hugmyndir um hvernig ég eigi að byrja þessar færslur.
En þetta hef ég verið að gera undanfarið:

·      Fór í aðal óperuna hér í Vín og sá fallega balletsýningu með nokkrum vinum. Salurinn og byggingin voru auðvitað undurfögur og ég kunni ágætlega að meta ballettinn, þó ég sé kannski ekki mikill aðdáandi. Keyptum ódýrustu sætin (ég komst að því þegar ég sá að verið var að selja KÍKI frammi á gangi þar sem maður labbaði inn hjá sætunum okkar) en okkur langaði bara að prófa að upplifa óperuna, klæða okkur fínt upp og svona.
·      Við skoðuðum Belvedere höllina (að utan) sem er ekki mjög langt frá okkur. Hún er held ég næst “frægasta” höllin í Vín, en ég var ekki yfir mig hrifin. Schönbrunn er mun fegurri.
·      Búin að fara 2svar á lunchdate á All you can eat – Running sushi stað, fór fyrst með stelpunum og var yfir mig hrifin þannig að ég tók drenginn með næst (hann var mjög spenntur yfir ALL YOU CAN EAT). Það má semsagt fá sér eins marga diska og maður vill og það kostar 8,80 evrur eða 1300 kr. íslenskar. Það er hægt að fá sér alls konar sushi, kjúkling, ávexti, fullt af djúpsteiktum Kína-mat, ís, köku og ég veit ekki hvað og hvað! Mjög gaman líka á running sushi og maturinn góður.
·      Fór með mínum heittelskaða fínt út að borða á Motto, svaka hip og kúl stað með fáránlega flottum húsgögnum, yndislegri þjónustu og ennþá betri mat! Fáir réttir á matseðlinum sem þýðir oftast gæði gæði gæði. Staðurinn er líka á “leynistað” – í hliðargötu í 5.hverfi og hann er ekkert merktur nema með pínulitlu merki framan á hurðinni og þú sérð ekkert inn um gluggana. Svaka spennó...
·      Fékk mér besta karamellu frappó ever. Allt slíkt er greinilega drasl á Íslandi, ég var í sjokki (já í sjokki) yfir því hversu gott þetta var. Katrin, nýja sæta austurríska vinkona mín fær prik fyrir að fara með mig á Coffee Day þar sem úrvalið af kaffidrykkjum var rosalegt (sem er nauðsynlegt fyrir ekki-kaffidrykkjukonuna mig).
·      Fór á pakistanskan veitingastað með annarri austurrískri vinkonu (maður er að reyna að mingla við heimamenn sjáiði til) rétt hjá skólanum mínum í hádeginu í gær sem var æði. Þar er konseptið þannig að þú færð þér eins mikið og þú vilt að borða og borgar svo eins mikið og þú vilt borga! Hah, þetta myndi aaaldrei gerast á Íslandi! Það voru nokkrir réttir sem hægt var að velja um, maður fer og fær sér sjálfur..og svo aftur og aftur ef maður vill. Hendir svo smá pening í kassakonuna áður en maður fer út.

Hér gætuð þið farið að halda að það eina sem ég geri er að fara út að borða, en því fer fjarri. Hér á Landgutgasse er næstum matreitt 3svar sinnum á dag. Ég ríf mig framúr á hverjum morgni og útbý morgunmat handa okkur (hafragraut með fullt af drasli eða hreint jógúrt með fullt af drasli), í hádeginu sameinumst við hjú fyrir framan steikingarpönnuna oftar en ekki með egg, smá kjöt eða eitthvað í þá áttina. Kvöldunum skiptum við svona nokkurn veginn jafnt niður og keppumst við um að matreiða hollan kvöldmat fyrir hvort annað. (ef þið haldið að þetta sé allur tíminn sem ég eyði í eldhúsinu, think again.. ég var að kyngja síðasta bita af nýbökuðum graskers/valhnetumöffins sem voru að koma úr ofninum rétt eftir miðnætti og þetta er ekki sjaldséð athöfn. Er að prófa mig áfram í hollustuhrákökubakstri og það hefur slegið í gegn síðustu 2 helgar, þær hafa báðar verið búnar á sunnudegi og já við erum einu étendurnir...plís, vill einhver fara að koma í heimsókn?)

Annars erum við nokkuð slök á því þessa dagana.. framundan er eitt lokapróf hjá mér í kúrsinum sem ég er í HÍ, annars eru það bara jólamarkaðir, þýskuæfingar, ræktin og Mad Men sem kemst að þessa dagana.

Yfir þessum er slefað annað hvert kvöld hérna... (og það er ekki bara ég!!)



- V

(p.s. klukkan á þessu blessaða bloggi er greinilega eitthvað að flippa en kl. er að verða 1 um nótt núna.. metnaður ekki satt?)

Friday, November 19, 2010

Uppáhalds góðgæti í Vín

Sorrí með mig, það er mikið að gera í skólanum þessa dagana eins og hjá flestum námsmönnum..

En eftirfarandi er nýjasta uppáhaldið þegar kemur að því að borða eða drekka. Þetta er ekki allt ekta "vínarískt" en þetta er allavega allt eitthvað sem ekki er til á Íslandi.

Baklava. 
Þetta unaðslega bakkelsi er tyrknest og það besta fæst í Tyrkjabakaríinu hér á næsta horni við húsið mitt.
Ég vil helst ekki vita alveg innihaldið en það er eitthvað sérstakt deig, hunang (veeel löðrandi), valhnetur og svo eru stundum malaðar pistasíuhnetur ofan á, en í mínu Tyrkjabakarí notar hann þær ekki. Ég gæti etið þetta í öll mál, og er hálf stynjandi þegar ég borða þetta yfir vaskinum (já það er SVONA löðrandi, ég þarf alltaf að skola hendurnar eftir á). Að sjálfsögðu fæ ég mér þetta bara alveg spari spari þar sem ég vil síður koma heim bollulaga.



 Sveitt!

Almdudler
Nýja uppáhalds gosið mitt. Er eins og sprite og þykkur appelsínudjús blandað saman. Mjög gott þar sem ég er bæði hrifin af sprite og epladjús. Einnig finnst mér myndin framan á skemmtileg sem og nafnið á drykknum.


Milka kex (Choco wafer)

Eiginlega uppáhalds "nammið" mitt um þessar mundir! Þetta er sjúúklega gott og verður oftast fyrir valinu á nammidaginn. Ég get sjaldan staðist súkkulaði sem er einhvern vegin eins og kex (ég var kexsjúk þegar ég var yngri).




Sturm
Ég var alltof sein að fatta uppá þessari dásemd. Þetta er vín, hægt að fá það hvítt og rautt. Það er bara hægt að fá það á sérstöku tímabili (tímabilinu lauk fyrir stuttu og ég náði bara að fá mér svona 2svar þar sem ég vissi ekkert hvað þetta var áður og var treg að smakka í fyrstu). Þetta er sætara og aðeins þykkara en rauðvín og hvítín og miiklu betra!

Svona líta flöskurnar út í búðum, þær eru frekar klístraðar þar sem ekki má loka tappanum alveg.

Balisto
Annað svona "kex" súkkulaði. Væri sennilega geymt í hollustuhillunum heima á Íslandi þar sem framan á þessu stendur: Erdbeer (jarðaber) og Joghurt. Kíkti samt um daginn og jarðaber eru um 5% af þessu... haha. 


Hafið ÞIÐ smakkað eitthvað af þessu? 



Saturday, November 13, 2010

Skrítnir siðir Vínarbúa


Það er gaman að flytja til nýrrar borgar og virða mannlífið fyrir sér og reyna að finna skemmtilega og óskemmtilega siði borgarbúa. Hér eru nokkrir punktar sem við höfum tekið eftir í fari Vínarbúa (ég vil síður nota “Austurríkismenn” því mikill fjöldi Vínarbúa eru ekki innfæddir Austurríkismenn. Ég heyrði tölu um daginn en ég man hana ekki, það var há tala sem lýsti því hversu margir Vínarbúar eru í raun ekki frá Austurríki).

1.    Græni kallinn: Hér virðist fólk taka umferðarreglum mjög alvarlega (sem að sjálfsögðu allir ættu að gera). Þegar fólk bíður eftir að ganga yfir gangbraut og rauði kallinn er sýnilegur en alls enginn bíll sjáanlegur í nokkurri fjarlægð, þá er beðið ALVEG þangað til græni kallinn mætir. Og þó að rauða ljósið sé komið hjá bílunum, neinei ekki voga þér að ganga yfir fyrr en sá græni sýnir sig. Við höfum bæði lent í smá uppákomum varðandi þetta, en um daginn skaust Eyþór yfir litla götu þegar rauði kallinn var á en engvir bílar sjáanlegir og labbaði beint í flasið á lögreglumanni sem skammaði hann (heldur hann – hann sagði allavega eitthvað á þýsku) og Eyþór sagði skömmustulega “entschuldigung” og dreif sig í burtu. Mitt atvik með rauða-græna kallinn var aðeins alvarlegra og hefði geta endað mjög illa. Ég var búin að vera í mánuð í Bandaríkjunum þegar ég var þar skiptinemi 17 ára gömul og ákvað að prófa hjólið sem þau gömlu (fósturforeldrarnir amerísku) áttu. Ekki alveg nógu góð hugmynd þar sem það var (ég endurtek VAR þar sem það gjöreyðilagðist eftir hjólatúr ljóshærðu íslensku stelpunnar) 3ja gíra eldgamalt hjól með FÓTbremsum. Veðrið var gott þrátt fyrir að komið væri fram í byrjun október og ég fór á stuttbuxum og bol í hjólatúr til þess að skila spólum á vídjóleigunni. Þegar kom að stórum gatnamótum rétt hjá vídjóleigunni ákvað stelpan frá saklausa Íslandi að hjóla yfir götuna þrátt fyrir helvíts rauða kallinn sem varaði mig við því. Að sjálfsögðu var “enginn bíll” nálægur þannig að ég ákvað að drífa mig yfir. Það fór þannig að það kom bíll keyrandi á svona 50 km hraða og keyrði á mig, ég skaust um 4 metra uppí loftið (mér var sagt það eftir á að kall sem var að vinna þarna rétt hjá hafi séð mig á hvolfi um 4 metra uppí lofti) lenti á húddinu á bílnum og hjólið dúndraðist út í vegakant. Einhver dró mig út í vegakant á meðan ég reyndi að malda í móinn við mannfjöldann í kringum mig “I don’t need an ambulance, please” en það gekk ekki neitt og ég var sett í hálskraga og læti og keyrð upp á spítala. Ég var heppin og endaði bara með 700 skrámur á fótleggjunum og fjólublátt mar á stærð við matardisk á lærinu, allt annað var í góðu lagi! Fannst langverst að missa af off-season körfuboltaæfingum... Ég lét mér þetta að kenningu verða og fór aldrei yfir á rauðum kalli eftir þetta (Edda Rós getur vottað það þar sem ég öskraði á hana við hvert tækifæri þegar hún ætlaði að hlaupa yfir á rauðum kalli þegar við vorum saman í Seattle). Ég viðurkenni þó að ég svindla af og til með þetta hérna í Austurríki, en ég ætla að taka mig á svo að ég lendi ekki die Polizei...já eða þá í slysi.

2.    Ókrifaða regla veitingastaða hunsuð: Við höfum lent nokkrum sinnum í því að fá matinn okkar ekki á sama tíma þegar við förum út að borða hér í Vín. Einn er alveg að klára matinn sinn þegar hinn fær sinn. Nefndi þetta við skiptinemavini mína hérna og jújú, þau höfðu lent í þessu líka. Ekki töff..

3.   Drengja-augabrúnaplokkun: Já þið lásuð rétt. Við höfum séð fullt af unglingsdrengjum (sem flestir virðast vera af tyrkneskum uppruna – ég er ekki að reyna að vera með fordóma en tyrkir eru stærsti innflytjendahópurinn hérna) sem eru með svartar augabrúnir og bara svakalega vel mótaðar! Fleiri vinir okkar hafa tekið eftir þessari tísku unglingsdrengjanna sem er afar fyndin að okkar mati.

4.    Hlaupahjól: Í Vín er algengt að sjá fullorðið fólk á hlaupahjóli. Það virðist ekkert jafn sjálfsagðara og að fullorðið fólk þeyti sér áfram á þessum tryllitækjum. Ég held ég myndi deyja úr hlátri ef ég sæji mömmu mína bara í fullri alvöru hendast niður hafnagötuna á leið í Cabo, á hlaupahjólinu sínu. En einhvern veginn finnst manni þetta bara nokkuð eðlilegt í stórborginni.

5.    Hártíska Vínarfrúa: Eyþór er virkilega hrifinn af þessu atriði. Hann er sífellt “í sjokki” yfir hártísku gömlu kellinganna hérna. Alltaf bendandi mér á gamlar konur með fjólublátt hár, ein var með ljóst hár en vínrauðan topp, ein var með alvöru röndótt hár, brúnt og svart hár og svo lengi mætti telja.

6.    Raðir: Ykkur finnst Íslendingar ekki kunna að standa í röð? Komið til Vínar. Hér er ruðst framfyrir  mann eins og fólki sé borgað fyrir það. Og sérstaklega gamla fólkið! Þykist ekki sjá ykkur í röðinni og drífa sig framfyrir þegar þú horfir eitthvert annað. Nú er ég alltaf svellköld þegar ég bíð í röð, það dugir ekkert að vera glápandi útí loftið eða skoða ipodinn sinn. Hér eftir er ég alltaf á tánum í röðum, læt ekki ryðjast fram fyrir mig framar!

Þetta er það helsta sem við höfum tekið eftir varðandi hegðun Vínarbúa, kem með fleiri atriði þegar ég hef búið hér lengur..

Wednesday, November 10, 2010

Föstudagsdeit

Föstudagar eru uppáhaldsdagarnir okkar Eyþórs í Vín. Þá förum við út og nýtum okkur það sem Vínarborg hefur uppá að bjóða (jújú við gerum það svosem líka á öðrum dögum en föstudagar hafa óvart orðið deit-dagar).

Föstudagur 1:
Einn föstudaginn fórum við í lunch á Cafe Central (af hverju er svo miklu meira “fab” að segja lunch? - hádegisverður er eitthvað svo leiðingjarnt orð). Cafe Central var fyrst opnað árið 1860 og í lok 19. aldar varð það aðal samkomustaður “merkilegra” Vínarbúa. Staðurinn heldur minningu þeirra á lofti þar sem spjöld standa á  sumum borðum með myndum og upplýsingum um þessa merku menn. Meðal velunnara staðarins voru Trotsky, Freud og fleiri listamenn sem þið kannist örugglega ekki við. Lenín og Hitler kíktu einnig þangað af og til (en ég efast um að þeim sé gert hátt undir höfði og splæst í spjald þarna). Allavega.. staðurinn var mjög flottur og skemmtileg stemning þrátt fyrir mikinn fjölda túrista þarna inni. Það er örugglega ennþá skemmtilegra að fara þangað að kvöldi til, en það er píanóleikur á staðnum um kvöldmatarleytið.

Þessi sjéntilmaður tók á móti okkur á Cafe Central

Hestarnir í forgrunni, við heyrum í þeim af og til fyrir utan gluggann okkar.


Eftir að hafa nærst, fórum við í Prater, skemmtigarðinn (tívolíið) í Vín. Við skemmtum okkur konunglega og öskraði ég (eða ok við...) úr mér lungun í flestum tækjunum.
Við enduðum daginn á að fara í Naschmarkt sem er aðal útimarkaðurinn. Þar er endalaust af fersku grænmeti og ávöxtum (m.a. hunangsmangó sem okkur langaði svo í en týmdum ekki að borga 1300 kr. fyrir eitt stykki). Þar er einnig fullt af fiski og kjöti, þurrkuðum ávöxtum, hnetum og meira gúmmelaði. Inn á milli eru nokkrir veitingastaðir og barir og svo eitthvað af fótboltatreyjum og slæðum...the usual. Uppáhaldið mitt eru mjúkustu og stærstu döðlur veraldar fylltar með valhnetu. Sjæse hvað þær eru góðar!







Föstudagur 2:
Annan föstudag ákváðum við að kíkja út fyrir landsteinana. Það er “möst” að fara yfir til Slóvakíu þar sem höfuðborg hennar, Bratislava er aðeins um 60 km frá Vín sem gerir þær að nálægustu tveimur höfuðborgum í Evrópu. Við tókum lest til Bratislava á fallegum og sólríkum haustdegi og þar biðu okkar hjálpsamir Slóvakar sem hjálpuðu okkur að taka réttan strætó niðrí bæ. Borgin er frekar lítil, en þar búa um 430.000 manns. Danube áin skiptir borginni í tvennt, þar sem einum megin er gamli sögulegi bærinn og hinum megin standa Sovétblokkir og gnæfa yfir borgina eins og gamall draugur (ljóðræn ekki satt?). Við héldum okkur mest í gamla bænum, löbbuðum upp að kastala þar sem við borðuðum hádegismat (nú eða lunch) á veitingastað með svaðalegu útsýni yfir alla borgina. Sötruðum á hvítvíni í sólinni og horfðum á starfsmenn veitingastsaðarins skreyta útitjaldið sem átti sennilega að vera tilbúið fyrir brúðkaup kvöldsins. Við eyddum deginum bara í rölt og át og fórum aftur til Vínar rétt eftir kvöldmatarleytið.







Föstudagur 3:
Ég ákvað að koma ástmanninum á óvart og hafa “surprise föstudags-deit”. Byrjaði á því að lokka hann í það sem hann hélt – ræktina en stoppaði hann af rétt áður en ræktar-stoppistöðin kom. Við héldum áfram með lestinni og fórum í það sem leit út fyrir að vera einhvers konar “country-club” en var í raun Sporthotel (hótel þar sem ýmsar íþróttir eru í boði fyrir gesti). Ég hafði pantað tennistíma fyrir okkur þar sem drengurinn er orðinn (og ég reyndar) mjög áhugsamur um þá íþrótt eftir að hafa lesið ævisögu Andre Agassi. Við höfðum aldrei prófað að spila tennis þannig að við litum ekki alveg nógu vel út þarna í kringum alla góðu gamlingjana sem kíkja þangað af og til og spila við félagana. Það var samt mjög gaman að prófa og við myndum pottþétt kíkja oftar ef þetta væri ekki svona fjandi dýrt. Eftir tennis var enn einn “lunchinn”. Ég dró Eyþór inn á organic grænmetisstað í uppáhalds hverfinu okkar sem einnig hefur að geyma bestu lífrænu búðina mína og við átum okkur alsæl og södd. Síðast á dagskrá var globe-museum en hér í Vín er stærsta samansafn af hnattlíkunum í heiminum. (Við erum bæði aðdáendur hnattlíkana og langar mjög í einn vintage hnött í framtíðarbúið). Þarna voru endalaust af hnöttum, af öllum stærðum og gerðum og margir mjög fallegir. Um kvöldið fórum við svo á tónleika í Karlskirche, sem er ein af milljón fallegu kirkjunum hérna. Þar var um 10 manna strengjahljómsveit (mínus einn á píanó eða einhverja skrítna útgáfu af píanó) sem spilaði fyrir okkur Fjórar árstíðir Vivaldi ásamt nokkrum öðrum klassískum verkum. Ég hafði greinilega ekki lært af reynslunni frá því í Prag fyrir um 8 árum þegar ég ásamt fiðluvinkonum og mæðrum fórum á tónleika í kirkju þar í borg. Við vorum allar að frjósa úr kulda allan tímann, og ég man að ég hugsaði "ef ég einhvern tímann fer aftur á tónleika í gamalli kirkju þá SKAL ég klæða mig vel!". Ég hafði þó ekki gleymt þessu, en í einhverri heimsku lét ég sjálfa mig trúa því að það yrði ekki svona kalt í þessari kirkju, hún myndi gefa kuldaskræfunni mér smá séns. Ekki varð úr því og ég sat með hendurnar undir rassinum og fætur krosslagðar allan tímann. Tónleikarnir voru þó ljúfir og passlega langir (drengurinn hefði ekki getað meir af fiðluspili held ég...).









Kv,
V.

p.s. er að prófa að hafa myndirnar aðeins minni.. veit ekki hvort er þægilegra að hafa þær svona eða stærri?


Friday, November 5, 2010

Unterschiedlich

Hér er smá lýsing á því sem við höfum verið að gera síðan við komum til Vínar:

Fórum eitt kvöldið á Cafe Sacher á Hotel Sacher til þess að bragða á frægustu köku Austurríkis, hinni “heimsfrægu” Sacher Torte. Þetta er einn af þeim túristahlutum sem ekki má sleppa í heimsókn til Vínar... allavega að mati Lonely Planet bókarinnar minnar. Það eru svona kökur út um alla Vín, en upprunalega Sacher tertan fæst aðeins á Hotel Sacher þar sem hún var fundin upp. Kaffihúsið var mjög kósý en kakan olli mér vonbrigðum. Hún var heldur þurr og apríkósusultan í miðjunni var ekki að gera nógu góða hluti.


                                                 Hótel Sacher

Annað kvöld langaði okkur að kíkja í sund. Heima á Íslandi fórum við mjög gjarnan í Sundhöllina á kvöldin, bara aðeins að kíkja í pottana þrátt fyrir nístingskulda og jafnvel snjó. Við vildum því kynna okkur sundlaugarmenningu Austurríkisbúa. Við vorum glöð að sjá að ein flottasta innilaug Vínar er í hverfinu okkar og stutt að labba. Þetta sundlaugardæmi var frekar furðulegt. Byggingin var mjög skemmtileg og flott umhverfið en við entumst í svona korter þarna. Það er ein stór sundlaug þar sem engar línur eru til að synda eftir brautum. Það var veeel stappað í lauginni og allir syntu bara einhvern veginn. Okkur leist ekkert á þetta en ákváðum að tjékka á “heita pottinum”. Það var lítil vaðlaug þarna en hún var örugglega kaldari en grunna laugin í Keflavík.. þannig að ekki nenntum við að hanga þar. Stökkbrettin voru reyndar mjög freistandi en nokkur þeirra voru fáránlega há! Á hæstu 2-3 brettunum mega bara "atvinnumenn" stökkva. Klefinn, klósettin og sturturnar voru svo öll á sitthvorum staðnum. Svo voru (líkams)þurrkarar fyrir utan sturtuherbergin og þar stóð fólk með handlæðið utan á sér og leyfði kroppnum að þorna.. fyrir framan alla. Hins vegar var ég langsvekktust með saununa þarna. Ekki að við höfum farið í hana þar sem það kostaði 13 evrur aukalega að fara í gufu. Er ekki í lagi? Við röltum heim og ákváðum að láta sundlaugarnar alveg vera þetta árið.


Hér getiði séð stökkbrettin - (myndir: google images)


Elín Inga æskuvinkona mín ákvað að kíkja í stutta heimsókn til Vínar áður en hún fór heim frá Frakklandi. Hún kíkti yfir í einn sólahring og við power-túriststuðumst um borgina, kíktum í kirkjur, skoðuðum fallegar byggingar, fórum á markaðinn og enduðum kvöldið á Akakiko sem er sushikeðja hér í Vín. Rosa gaman að fá næturgest til okkar og getur hún örugglega mælt með stóru upplásnu dýnunum okkar... (p.s. Ryan Air flýgur frá London til Bratislava sem er bara klst í burtu frá Vín, fáránlega ódýrt). Hint hint...


Svona mynd fá allir sem koma í heimsókn til Vínar, til heiðurs Lil Kim vinar okkar.


Síðasta laugardag fórum við hjúin á fyrsta handboltaleikinn okkar. Þið sem þekkið okkur vitið að við erum fjarri því að vera handboltaaðdáendur en við vorum forvitin að sjá stemninguna. Austurríki tók á móti Íslandi í bæ 40 mín frá Vín og við fórum þangað með 5 öðrum Íslendingum. Stemningin var vægast sagt frábær. Meirihlutinn af heimamönnum var með fána og þau sungu og sungu með lögunum og lifðu sig þvílíkt inn í leikinn. Húsið trylltist gjörsamlega þegar lög með DJ Ötzi komu á fóninn! Leikurinn endaði þó ekki vel fyrir okkur, “Niederlage” af bestu gerð.

                                       Við mættum rétt í tæka tíð fyrir þjóðsönginn  

Eyþór og Haukur ánægðir með eitthvað annað en frammistöðu Íslendinga..

   Markmaður Íslands sennilega að fá á sig mark... sem var ekki sjaldséð sjón á þessum leik.

Austuríkismenn með fánana og sennilega að syngja með DJ Ötzi

Íslenskur drengur flottur á því

Einn íslenskur stuðningsmaður var sérstakleg niðurbrotinn vegna ósigursins


- V


Monday, November 1, 2010

Háskólinn í Vín

Universität Wien er elsti háskóli í þýskumælandi Evrópu (stofnaður árið 1365) og er einn stærsti háskóli Evrópu. Þetta haustið nema um 74þúsund manns við skólann! Þessi talan hljómar fáránlega (á wikipedia stendur meirasegja 85þúsund en ætli talan rokki ekki milli ára) en þetta var mér sagt á háskólakynningu fyrsta daginn minn í Vín. Skólinn hefur að geyma byggingar á um 60 stöðum um alla Vínarborg. Aðalbyggingin er gullfalleg, að innan sem utan þrátt fyrir að stofurnar séu fremur óspennandi. Ég er í þremur tímum hérna (er svo að taka einn í fjarnámi við HÍ) og þeir eru allir mjög spennandi; Nationalism in Central and Eastern Europe, EU immigration and integration  policy og Transformation and transition in Greater China. Ég er í fyrstu tveimur kúrsunum einu sinni í viku og svo er ég í China kúrsinum annan hvern laugardag (jibbbíí...). Allir kúrsarnir eru kenndir á ensku, sem betur fer, því þýskan mín er ekki næstum því nógu góð enn. En við erum að vinna í því...

Hér sést í dyrnar á stofunni sem ég er í í Aðalbyggingunni


Það er ýmislegt frekar spes við skólann. Ég bjóst við, fyrst þetta er svona gamall og virðulegur skóli að ég yrði með gamla gráhærða prófessora með gleraugu (ok kannski ekki alveg en þið skiljið..) en ég er ekki með einn kennara eldri en svona 35 ára og varla það.. þau eru öll um svona þrítugt! Allt nýútskrifaðir doktorsnemar sem eru að kenna kúrsa sem fjalla um þeirra rannsóknarsvið eins og við má búast. Þau eru samt öll mjög klár og kunna mikið í sínu fagi greinilega.

Annað sem er spes er að skólinn er mjög svo eftir á í alls konar málum. Ég hef enn ekki séð tölvu á kennaraborðinu sem tengd er við slide show tæki, en það er svosem ekki nauðsynlegt þar sem allir kúrsarnir mínir eru eins konar umræðutímar. Maður VERÐUR að mæta vel lesinn og undirbúinn í hvern tíma þar sem kennarinn getur poppað á þig spurningu um lesefnið sem þú þarft að geta svarað á gagnrýninn hátt fyrir framan alla og helst spunnið einhverjar umræður úr því. Í lok hvers tíma er hefð fyrir því að allir banka í borðið sitt, til að sýna kennaranum og tímanum virðingu (haha wtf..hugsaði ég í fyrsta tímanum mínum). Öll námaðstaða er til skammar miðað við fjölda nemenda og einnig mataðstaða. Það eru ENGIN hópverkefnaherbergi og engin borð þar sem hægt er að setjast niður og læra saman. Þú getur farið á bókasafnið í aðalbyggingunni en þar þarftu fyrst að sækja lykil í afgreiðslunni, svo fara í skápaherbergið og setja allt dótið þitt inn í skáp áður en þú ferð inn í lesstofu. Aðeins er leyfilegt að taka með nauðsynlegt lesefni, tölvur, blöð og slíkt sem tengist lærdómi. Engar vatnsflöskur, töskur, úlpur eða slíkt. Og já það eru “verðir” þegar þú labbar inn í lesstofuna sem fylgjast með þessu. Svo geturðu bara prentað í þessari byggingu, ljósritað í hinni ogsvoframvegis. 2 kúrsarnir mínir eru í nýrri byggingu rétt hjá Aðalbyggingunni og einn kúrs er í henni sjálfri. Í aðalbyggingunni er engin mataðstaða, en í nýju er matsalur en það er hvergi hægt að hita upp nestið sitt né grilla sér neitt.

Þetta er lesrýmið á bókasafni Aðalbyggingar háskólans (hvergi eru veggir sem skilja að hvern og einn eins og er heima í öllum lesstofum)


Helgarnar eru svo sérkapituli útaf fyrir sig sem og skráningakerfið í kúrsana. Það er opið í byggingunum á laugardögum en ef þig langar að prenta út eða sinna almennum þörfum þínum, t.d. að fara á salernið geturðu gleymt því. Það er greinilega enginn sem kemur og tjekkar á stöðunni þarna um helgar því pappírinn er alltaf búinn í prentarann eða allir bilaðir nema einn. Það er ALDREI klósettpappír til á neinu klósetti í nýju byggingunni þannig að ég er farin að taka með mér ef ég fer þangað á laugardögum (kveðja, pissóðasta manneskja sem þið öll sennilega þekkið).  Að sjálfsögðu er svo lokað í skólanum á sunnudögum þar sem Austurríkissmenn taka þann dag mjög heilagan (jeje..það er bara ennþá verið að halda í gamlar hefðir, ég vil ekki meina að þeir séu svona trúarlegir).

Já og skráningakerfið.. Það skrá sig allir í þá kúrsa sem þeir vilja og svo er bara  eitthvað random kerfið hvort þú kemst í kúrsana eður ei. Ég sem betur fer komst inn í alla kúrsana mína og vissi því ekki af þessu vandamáli fyrr en ég mætti í fyrsta tímann minn. Þar hitti ég stelpu frá DK sem sagðist vera á biðlista og var að vonast til þess að geta verið í tímanum. Það voru sæti fyrir svona 50 manns þarna inni, við vorum allavega 70 í fyrsta tímanum þannig að fólk kom sér bara vel fyrir á gólfinu. Kennarinn las upp listann með skráðum nemendum, þeir sem voru ekki mættir voru köttaðir út á staðnum. Hún sagði um 100 nemendur á biðlista og þeir sem mættu ekki í fyrsta tímann fengu ekki að vera með. Þegar hún var komin uppí 45 nemendur sagði hún “jæja þið hin sem ég hef ekki lesið upp, ég á 5 laus sæti eftir í þessum tíma”. Nokkrir skiptinemar réttu upp hönd (þar sem við eigum að ganga fyrir þar sem Vínar-nemendurnir geta tekið kúrsinn seinna en við ekki) og tóku síðustu lausu sætin í tímanum. “The rest of you, please step out of the classroom”. Semsagt; fáránlegt kerfi sem sífellt er verið að mótmæla af nemendum og sérstaklega undanfarnar vikur. Það eru búin að vera “demonstration” (skipulögð mótmæli) gegn nýju frumvarpi og skerðingu á réttindum nemenda allavega nokkrum sinnum síðan skólinn byrjaði og þau ætla að gera það amk. 1x í viku þangað til eitthvað gerist. Ætli maður geti ekki verið ágætlega sáttur bara með Háskóla Íslands...

Gatan sem liggur á milli Aðal - og nýju byggingarinnar sem ég er í 


Ég mun taka eitt lokapróf hér úti og það verður munnlegt (sem er ekki beint uppáhalds fyrir ritgerðaróða stelpu sem nær oft ekki að tjá það sem hún hugsar munnlega heldur vill öllu heldur geta hugsað fyrst, sett niðrá blað og svo lagað eftir hentisemi). Í hinum tveimur áföngunum er stór ritgerð og fyrirlestur en ekkert próf. Já og ég má skila þessum ritgerðum í lok febrúar (en haustönnin endar samt í lok janúar). Austurrísku krakkarnir sem ég er búin að kynnast í tíma sögðu mér að það væri mjög eðlilegt. Stundum er lokafresturinn fyrir ritgerð á haustönn í svona júní á næsta ári... já einmitt, mjög eðlilegt. Einnig hafa þau sagt mér að einkunn kemur stundum ekki inn fyrr en svona 3-4 mánuðum eftir próf/námskeiðslok. Djöfull hlakka ég til að eiga við LÍN eftir áramót!

...já og talandi um LÍN. Heima á Íslandi er mjög eðlilegt að námsmenn sem ekki búa í foreldrahúsum taki fullt lán allar annirnar sínar, þrátt fyrir að vinna líka eitthvað með skólanum. Hér tíðkast það alls ekki. Þýskumælandi löndin eru víst ekki jafn lánóðir og við Íslendingar en austurrísku skólafélagar mínir sögðu að ríkið gæfi þeim pening og svo vinna þau líka með skóla. Sú danska var einnig mjög hissa “WHAT? THE GOVERNMENT DOESN’T GIVE YOU MONEY SO YOU CAN GO TO SCHOOL???” Een ég ætla þó ekki að kvarta, eftir að hafa heyrt sögur af austurríska grunnskólakerfinu þá er það íslenska nokkuð gott bara miðað við það (nenni ekki að fara út í þá sálma núna en það er fáránlegt grunnskólakerfið hérna og í Þýskalandi veit ég líka).


Aðalbyggingin að utan

Ég er samt mjög ánægð í skólanum hérna þrátt fyrir að hann sé spes að ýmsu leiti. Krakkarnir eru mjög fínir sem og kennararnir og mér finnst námsefnið mjög spennandi! Gaman að geta tekið áfanga sem eru öðruvísi en heima og ekki í boði þar, sem og að heyra reynslur og sjónarmið nemenda frá öðrum löndum.

Viele grüsse,
Vala (jebb nýjasta nickname-ið, ég nennti ekki að standa í Valgerður og Val finnst mér of amerískt...)

myndir frá Wikipedia, Eyþóri og einhverjum Peter sýnist mér