Nýjasta æðið hjá mér í eldhúsinu er kínóa.
Smá fróðleikur um kínóa ef þið vitið ekki um hvað ég er að tala..
Kínóa á rætur sínar að rekja til Andesfjalla. Þar hefur það spilað stórt hlutverk í mataræði og næringu Inkanna í yfir 6000 ár. Inkarnir mátu kínóað mikils og töldu það vera móður alls korns. Kínóað lítur út eins og litlar kremlitaðar kúlur og minna á hirsi og er oft kallað “litla hrísgrjónið”. Það er 1 ½ - 2 mm að þvermáli
Kínóa er ekki eiginleg korntegund heldur er það fræ af Chendopodium ætt og náskylt bæði rauðrófum og spínat. Inkarnir borðuðu ekki bara fræið heldur líka blöðin af plöntunni sem eru græn og mjög góð í salat. Kínóað er afar próteinríkt og alveg glútenlaust. Það inniheldur allar 8 amínósýrurnar sem eru líkamanum nauðsynlegar. Það inniheldur einnig mikið af trefjum, omega 3 fitusýrum, járni, b-vítamínum og steinefnum. Það hefur lágt fituhlutfall og er frábær uppspretta flókinna kolvetna.
Ég er búin að vera að leika mér með þetta hráefni síðastliðnar vikur og prófaði að nota þetta í kvöldmat, morgunmat og eftirrétt.
Ég prófaði að gera kvöldverð úr kínóa úr uppskrift sem ég fékk hjá Krúsku en breytti henni svolítið. Hér er uppskriftin aðlöguð að mínum þörfum:
1 laukur
3 hvítlauskrif
2 dl kínóa
rúmlega 4 dl af vatni
slatti af karrý og svörtum pipar (kannski um 1 og hálf tsk)
svolítið af salti og cumin
smávegis af kanil
einn grænmetisteningur
eins mikið og þið viljið af:
gulrótum
papriku
kúrbít - allt grænmeti smátt skorið
hnetumix
Ég byrja á því að steikja lauk og hvítlauk í smá stund á nokkuð stórri og djúpri pönnu, skelli svo restinni af grænmetinu út í og steiki aðeins. Því næst helli ég kínóainu útá og krydda með ofantöldum kryddum. Set vatnið útá og þvínæst teninginn. Set lokið á pönnuna og leyfi að sjóða í um 15-20 mín (á meðalhita). Smakka og athuga hvort kínóað sé ekki orðið hæfilega mjúkt. Yfir þetta strái ég svo þeim hnetum sem ég á hverju sinni.
Ég hef notað þetta sem "side-dish" með kjöti en einnig hef ég sett hvítar baunir út á og haft sem aðalrétt. Þetta er sjúklega gott! Kryddblandan passar ótrúlega vel með kínóainu og þetta er orðinn einn af þeim réttum sem ég mun alltaf gera af og til.
Taka 2
Eftir að hafa gert þennan rétt nokkrum sinnum ákvað ég að tilraunast einn morguninn. Í staðinn fyrir hafra í hafragrautinn ákvað ég að prófa að nota kínóa. Mikil mistök. Allavega fannst okkur þetta ekki gott þrátt fyrir að ég sturtaði úr kanilstauknum, setti uppáhalds hafragrautshráefnin; banana, valhnetur og rúsínur þá var þetta bara ekki að gera sig.
Taka 3
....heppnaðist bara nokkuð vel!
Fann uppskrift á netinu þar sem kínóa er notað í staðinn fyrir hveiti í súkkulaðiköku. Semsagt glútenfrí, en samt ekkert sú hollasta sem ég hef gert. Hún bragðaðist mjög vel og maður fann ekkert bragð af kínóainu, heldur var það bara "fylling" í kökuna.
Uppskriftina má finna hér (og einnig mun girnilegri mynd!). Ég helmingaði hana þó þar sem við Eyþór erum oftast þau einu sem borða þessar kökur mínar hérna úti..
Eitt verð ég þó að viðurkenna að þegar kemur að mataræði þá er ég algjör hræsnari! 90% þeirra máltíða (morgun, - hádegis, og kvöldmatur) sem ég borða eru í hollari kantinum en hins vegar er ég millimáltíðasnakkari dauðans. Og þó ég sé oft bakandi hollustukökur þá er ég samt sjúk í nammi og bakarís-bakkelsi. Þannig að ekki halda að ég sé einhver hollustuengill í einu og öllu...
kv. EldhúsarBjörkPálsdóttir