Friday, October 29, 2010

Byrjunin á á Vínardvöl


Eftirvæntingin skein úr augunum á okkur þegar við löbbuðum inn í nýju íbúðina okkar nokkrum klukkutímum eftir að við lentum í Vín (fórum fyrst í smá kaupleiðangur með Evu á meðan verið var að fínpússa heimilið). Og ó, hvað við urðum glöð! Við höfðum ekki séð neinar myndir af íbúðinni en Eva og Rainer maðurinn hennar höfðu tekið hana alla í gegn fyrir komu okkar. Og niðurstaðan varð sú að hún er næstum fullkomin fyrir okkur. Nýjar innréttingar í stíl við antíkhúsgögn og falleg ljós er eitthvað sem við fílum í botn.



Fyrstu vikunnni eyddum við í að koma okkur fyrir, redda öllu sem þarf þegar maður flytur á nýjan stað.
Fyrsta helgin í Vín var frábær. Ég átti von á vini mínum frá Seattle sem var að ferðast um Evrópu í nokkrar vikur. Við hittum Drew á hótelinu hans og eyddum helginni með honum. Það var yndislegt að hitta hann aftur og hann og Eyþór náðu vel saman. Á föstudeginum fórum út í sushi með ansi mörgum Erasmus dömum ásamt tveimur austurrískum og fórum svo í “welcome party” á vegum ESN sér um félagslífið hérna fyrir Erasmus nemana. Á laugardeginum túristaðist kaninn aðeins með ferðafélugum sínum á meðan við hjúin lágum í sófanum og átum besta kebabið í borginni, sem fæst hérna á horninu fyrir 2 evrur hjá meistara Lil Kim. Við létum þynnku þó ekki stoppa okkur í að kíkja út seinnipartinn.





Á dagskránni var að kíkja á nokkur söfn en einu sinni á ári er “safnanótt” – Lange Nacht der Museen í Vín. Við borguðum 11 evrur og höfðum tækifæri á því að skoða öll söfn Vínar frá um 6 um kvöldið til 1 um nóttina. Við náðum að skoða fjögur söfn sem voru öll mjög áhugaverð. Fórum á Sigmund Freud – og Mozart safnið þar sem íbúðir þeirra höfðu verið varðveittar og breytt í safn um líf þeirra og verk. Það var ansi skemmtilegt að sjá hvernig þeir bjuggu og ímynda sér lífið í Vín á þessum tímum. Við skoðuðum einnig hljóðfærasafnið á landsbókasafninu (sem er by the way ein uppáhalds byggingin mín í Vín) sem hafði að geyma fullt af eldgömlum og fallegum hljóðfærum. Við enduðum kvöldið á litlu skósafni þar sem skósmiðir voru að vinnu og höfðu fjöldann allan af skóm til sýnis frá ýmsum tímabilum.




Borgin er annars alveg hreint æðisleg! Maður labbar stundum um og trúir varla sínum eigin augum yfir fegðurð sumra bygginganna hérna, enda hefur fjöldinn allur af listamönnum, tónskáldum og öðrum merkismönnum orðið fyrir áhrifum hennar (maður er alltaf að læra um fleiri og fleiri merka menn sem bjuggu í Vín eins og t.d. Mozart, Vivaldi, Beethoven, Haydn, Sigmund Freud, Gustav Mahler ofl.) Borgin er frekar róleg, hrein og örugg en Vínarbúar eru um 1,7 milljón. Hún skiptist í 23 hverfi, sem öll eru staðsett hringinn í kringum 1.hverfið, sem er eins og þið flest hafið eflaust giskað á – miðbærinn. Við Eyþór hlökkum til að eyða næstu (allavega) 9 mánuðum hérna, sá fyrsti hefur allavega verið æði!
Meira næst um skólann, hverfið, vinnuna og undarlega siði Vínarbúa...


Auf wiederhören!



Tuesday, October 26, 2010

Fyrsti í bloggi; Berlín.

Jæja! Bloggið loksins komið af stað.. ætli ég byrji ekki alveg á byrjun ferðalagsins og lýsi fyrir ykkur Berlínarferðinni.




Allavega..
Við lentum í Berlín og tókum strassebahn (ofanjarðarlest) og svo kvöldstrætó með allan farangurinn sem við áttum eftir að bölva mikið það sem eftir lifði ferðar. Við fundum hostelið sem er staðsett í einu af “arty” hverfum Berlínar, Kreuzberg en þar má finna fjöldann allan af námsmönnum, innflytjendum (tyrkjum, indverjum og svo þeim sem reyktu mikið gras í almenningsgörðunum þegar rökkva tók..). Einnig voru veitingastaðir, pöbbar, bakarí og spätkauf (litlar sjoppur sem opnar eru næstum allan sólahringinn og selja áfengi, nammi og fleira í þeim dúr) á hverju horni. Eftir að við fórum um önnur hverfi borgarinnar komumst við þó að því að í flestum þeirra (sem eru miðsvæðis) er sömu lýsingu að finna, fyrir utan kannski fjölda innflytjenda. Við gistum 3 nætur á hostelinu sem var svona lala..virkilega ljótt herbergi sem við fengum en það svosem þjónaði sínum tilgangi, ágætisrúm og sameiginlegu sturturnar voru mjög fínar.




Síðustu 2 næturnar gistum við í Friedrichshain, hverfi sem er staðsett rétt hinum megin við ána (og múrinn) við Kreuzberg. Á milli þessara hverfa er á sem skilur þau að og einnig lengstu leifar múrsins sem er nú búið að breyta í eins konar lista”safn” – East side gallery þar sem um hundrað listamenn frá svipað mörgum löndum fengu sitt svæði á veggnum til þess að tjá list sína. Nokkuð gaman að skoða það og mörg listaverkin mjög flott.




Í Berlín löbbuðum við heilan helling og skoðuðum helstu túristastaðina auk þess sem við kíktum í margar second-hand búðir ásamt nokkrum vinsælum fatabúðum. Veðrið var yndislegt sem gerði stemninguna í Berlín einstaka, við vorum mjög heppin þar sem það hafði verið hellidemba vikuna áður. Hefði verið aðeins leiðinlegra að túristast í grenjandi rigningu..




Söfnin og helstu túristastaðirnir ollu okkur nokkrum vonbrigðum en við fórum í DDR safnið, Checkpoint Charlie, Gyðingasafnið, skoðuðum Brandenburgarhliðið og Potsdamer Platz. Flest söfnin voru heldur þurr, við urðum allavega ekki fyrir mikilli hrifningu..
Í Friedrichshain gistum við hjá Vanessu, þýskri vinkonu minni sem var að kenna þýsku við HÍ þegar ég tók þar einn kúrs. Hverfið hennar var mjög líflegt og skemmtilegt. Við fórum og hittum vini hennar eitt kvöldið og stútuðum ansi mörgum 3,5 evra kokteilum hjá Mustafa, félaga þeirra og eiganda indverska veitingastaðarins rétt hjá lestarstöðinni.




Borgin er mjög lífleg og það skiptir ekki máli á hvaða tíma maður röltir um, það eru alltaf margir á ferli. Sagan er nýtt vel, útúm allt eru túristastaðir helgaðir múrnum og skiptingunni í austur og vestur. Fílíngurinn er sérstakur, það er einhvern veginn alltaf stemning í Berlín..alltaf eitthvað um að vera. Veit ekki alveg hvernig ég á að lýsa því en hún er mjög ólík hinni rólegu Vín.




Við vöknuðum eldsnemma morguninn sem við áttum bókað flug til Vínar. Löbbuðum að lestarstöðinni með töskufjölskylduna sem hafði lést eitthvað smá eftir að við sendum nokkra pakka yfir til Vínar. Fyrir ykkur forvitnu (ég veit þið eruð nokkrar þarna innritunarpíur sem hafa gaman af svona upplýsingum) þá mætti ég til Berlínar með 29 kílóa ferðatösku, 10 kg stóran túristabakpoka á öxlunum, tölvutösku og svo litla handfarangurstösku. Þar sem við notuðumst bara við almenningssamgöngur vorum við ógeðslega þreytt á töskunum og stundum réð ég ekkert við þetta (sérstaklega þar sem það er verulegur skortur á lyftum í Berlín og hótelherbergið okkar var á 4.hæð og á mörgum stöðum voru engar lyftur á lestarstöðvunum). Þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur hamingjuna þegar góði innritunargaurinn frá Air Berlín tók allar töskurnar og innritaði okkur með bros á vör án þess að segja neitt við þessum 12 aukakílóum sem við vorum með (og já, ég var líka búin að kaupa auka 10 kíló áður, þegar við pöntuðum miðana þannig að við vorum með auka 22 kíló alls....)

Flugið var gott og stutt og við vorum glöð að sjá Evu (íslenska daman sem er að leigja okkur íbúðina) sem tók á móti okkur á flugvellinum og fór með okkur “heim”.

Framhald síðar... 


p.s. ég vildi drífa þessa síðu af stað, nenni ekki að fikta í útlitinu að svo stöddu.
p.s.2 - fleiri myndir á facebook